Fótbolti

Svava Rós kveður fót­boltann fyrir þrí­tugs­af­mælið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir á ferðinni á Evrópumótinu með íslenska landsliðinu.
Svava Rós Guðmundsdóttir á ferðinni á Evrópumótinu með íslenska landsliðinu. VÍSIR/VILHELM

Íslenska knattspyrnukonan Svava Rós Guðmundsdóttir hefur ákveðið að setja fótboltaskóna sína upp á hillu.

Svava tilkynnti á samfélagsmiðli sínum í dag að hún væri hætt í fótbolta og þakkaði fótboltanum fyrir þann tíma sem þau áttu saman.

Skilaboðin voru einföld: Takk fyrir mig Fótbolti. Með setti hún myndband frá nokkrum stórum stundum frá ferlinum.

Margar knattspyrnukonur og fyrrum liðsfélagar hafa óskað Svövu til hamingju með feril sinn sem hófst í Val en fór síðan með hana út um allan heim. Fáar íslenskar knattspyrnukonur hafa spilað á hæsta stigi í fleiri löndum en einmitt Svava.

Svava heldur upp á þrítugsafmælið sitt fyrr en í næsta mánuði en þarf að taka þessa stóru ákvörðun svo snemma.

Svava Rós lék á sínum tíma 41 landsleik fyrir Ísland og spilaði sem atvinnumaður í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Bandaríkjunum og Portúgal.

Hún var á láni hjá portúgalska félaginu Benfica þegar hún varð fyrir slæmum meiðslum á mjöðm.

Þetta voru alvarleg meiðsli sem kölluðu enn fremur á aðgerð fyrir einu og hálfu ári og hefur haldið henni frá fótboltavellinum síðan hún meiddist í október 2023.

Svava Rós eignaðist sitt fyrsta barn í apríl síðastliðnum og hefur nú ákveðið að fótboltaferillinn heyri nú sögunni til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×