Handbolti

„Stærri og sterkari en liðin sem við þekkjum hérna heima“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson veit að Framara bíður erfitt verkefni í kvöld.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson veit að Framara bíður erfitt verkefni í kvöld. vísir / anton brink

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson verður ekki með í leik Fram og Elverum í Evrópudeildinni í kvöld, en þekkir andstæðinginn vel eftir að hafa spilað við Elverum fyrir mánuði síðan.

Þorsteinn nefbrotnaði í síðasta leik gegn ÍR eftir óheppilegt samstuð við liðsfélaga sinn á fyrstu mínútu leiksins og missir af leik kvöldsins.

Hann er nýgenginn aftur til liðs við Fram eftir að hafa reynt fyrir sér um stutta stund hjá Sandefjord í Noregi. Hann spilaði aðeins sex leiki fyrir Sandefjord en einn þeirra var einmitt gegn Elverum, sem heimsækir Lambhagahöllina í Úlfarsárdalnum í kvöld.

„Þeir eru stærri og sterkari en liðin sem við þekkjum hérna heima, aðeins massaðari. Þetta er topplið í Noregi, eins og allir tala um, það eru þessi tvö lið: Kolstad og Elverum “ sagði Þorsteinn í samtali við Vísi fyrir leik kvöldsins.

Frábær stemning hjálpar til 

„Þetta er krefjandi verkefni en við teljum okkur alveg geta valdið einhverjum usla. Svo hjálpar líka hvað það er frábær stemning, eða allavega í síðasta leik, vel mætt og geggjuð stemning.“

Þorsteinn segir leikmenn Elverum stærri og sterkari en leikmenn Fram, en Fram hefur lagt mikið upp úr því undanfarin ár að styrkja liðið líkamlega.

„Já við erum klárlega búnir að bæta við kílóum, en svo er líka hæðin, þeir eru mjög hávaxnir margir þarna. Þetta verður hörkuleikur en þeir töpuðu líka fyrsta leiknum gegn svissneska liðinu Kriens og hafa verið að tapa einhverjum leikjum í norsku deildinni“ sagði Þorsteinn vongóður um sigur.

Fram tapaði með tólf mörkum fyrir Porto í fyrstu umferðinni en ætlar sér að gera betur í kvöld.

„Við misstum þá full langt frá okkur undir lokin en þetta var alveg leikur framan af. Við erum auðvitað að vonast til þess, ef við höldum okkur nálægt þeim, þá kemur kannski svolítið stress. Þetta var full þægilegt fyrir Porto, þeir náðu að halda okkur svona fjórum mörkum frá eiginlega allan leikinn, en ef við getum haldið þessu jöfnu og kannski komist yfir á einhverjum tímapunkti þá þarf hitt liðið að bregðast við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×