Skoðun

Blóð­merar - skeytingar­leysi hinna þriggja valda

Árni Stefán Árnason skrifar

Liðin 5 ár frá því ég, fyrstur manna, ljóstraði upp um blóðmeramálið 14. jan. 2020 í grein á heimildins.is og hefur hlotið viðurkenningu frá 1700 lesendum Heimildarinnar heitinnar.

Samfélagið allt fór um tíma bókstaflega á hvolf eftir birtingu hennar. Málið þótti og þykir svo níðingslegt.

Nú hafa íslensk og útlensk dýraverndunarsamtök sankað að sér 300 þús. undirskriftum skv. mbl.is sem hafa verið afhentar ráðherra dýraverndarmála á Íslandi Hönnu Katrínu, sem líklega engan áhuga hefur á málinu þrátt fyrir að vera Evrópusinni, sem Viðreisnarforystusauður. Blóðtaka úr merum er fordæmd í öllum Evrópulöndum utan Íslands.

Með Hönnu Katrínu í ríkisstjórn situr flokkurinn Flokkur fólksins. Formaður þess flokks, Inga Sæland er þagnaður. Hafði hún um málið hæst allra þingmanna í stjórnarandstöðu. Um leið og sætið var í sjónmáli virðist svo sem hún hafi sett málfrelsi sitt um blóðmeramálið í gíslingu. - Þingmenn eiga þó að heita frjálsir sannfæringa sinna. Svo sérkennilegar eru áherslur þess flokks að mikilvægara þykir honum, skv. miðlum þegar þetta er skrifað, að skikka bændur í meirapróf heldur en að berjast gegn blóðmerahaldi.

Áhrifamenn fjórða valdsins virðast löngu búnir að missa áhuga á blóðmeramálinu, sem er virkilega miður.

Eftir stendur að blóðmeramálið er eitt mesta dýraníð á Íslandi.

Það vekur með mér óhug að völdin þrjú, þing, framkvæmdavald með pressu frá því fjórða, fjölmiðlum, skuli ekki hafa stöðvað þennan hrottaskap gagnvart blóðmerum og föllnum folöldum þeirra. 5 árum eftir að upplýst var um þetta mikla dýraníð er ennþá verið að níðast á blóðmerum og Matvælastofnun dansar með níðinu.

Upphaf umfjöllunar um blóðmeraníðið má finna á þessum tengli.

Höfundur er dýraverndarlögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×