Lífið

„Við María eigum rosa­lega fal­legt sam­band og erum þakk­lát hvort fyrir annað“

Atli Ísleifsson skrifar
Eitt vinsælasta lag síðustu ára á Íslandi ber nafn Ella Egils í titilinum. Elli hélt upphaflega að lag Herra Hnetusmjörs væri grín.
Eitt vinsælasta lag síðustu ára á Íslandi ber nafn Ella Egils í titilinum. Elli hélt upphaflega að lag Herra Hnetusmjörs væri grín.

Elli Egilsson Fox myndlistarmaður segist hafa fundið tilgang sinn í lífinu eftir að hann tók að sér fósturbörn með eiginkonu sinni Maríu Birtu og hafa þau nú einnig ættleitt tvö börn.

Elli, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist alltaf hafa verið dugnaðarforkur sem elski að vinna og að hann þurfi stundum að láta konuna sína minna sig á að hann eigi fjölskyldu.

„Ég vakna alla daga og elska að fara í vinnuna mína. Þetta er vinna, en þetta er líka stærsta áhugamálið mitt og hin ástin í lífi mínu. Stundum óska ég þess að sólarhringurinn væri miklu lengri. Ég er mjög duglegur náungi og hef alltaf verið strangur við sjálfan mig. Ég er alvöru yfirmaður fyrir mig sjálfan og hef alltaf verið mjög vinnusamur og með þessa íslensku vinnusemi í blóðinu. Ég er „grinder“ og hef alltaf verið. Ég held að ég fái þetta frá afa mínum á Ægissíðunni sem gerði alltaf allt sjálfur.

Ég lærði það mjög ungur að þurfa að bjarga mér og finna út úr hlutunum sjálfur. Mamma var flugfreyja og var mikið í útlöndum og pabbi vann í sjónvarpinu og var með langa vinnudaga, þannig að við bræðurnir vorum mikið einir. Hvort sem það var að elda eða annað, þá lærði ég bara að þurfa að vera duglegur og redda mér. Eftir að ég fór að vinna fyrir sjálfan mig hef ég búið að þessu og það hefur aldrei verið vandamál fyrir mig að aga mig í að vinna mikið og vera yfirmaður yfirmannanna á mig sjálfan,” segir Elli.

Ekkert „limit“

Elli segist stundum hafa orðið of strangur við sjálfan sig og vinnan nánast tekið yfir allt annað.

„Það er eiginlega ekkert „limit“ hjá mér sjálfum mér þegar kemur að vinnu, enda elska ég vinnuna mína það mikið, en María konan mín þarf stundum að hafa vit fyrir mér. Það kom til dæmis dagur um daginn þar sem hún kom bara að mér og sagði: „Elli, þú verður að muna að þú átt líka fjölskyldu“. Þegar hún sagði þetta fannst mér ég skilja ákveðna hluti betur. Þó að ég elski pabba minn rosalega mikið var ég búinn að lofa mér að vera ekki jafnmikið í vinnunni og hann var þegar ég var barn. En núna skil ég hvaðan hann kemur. Hann elskaði vinnuna sína jafnmikið og ég geri. Það getur verið erfitt að sameina fjölskyldulíf og vinnulíf ef maður elskar vinnuna sína svona heitt.“

Tilgangurinn fundinn

Elli og María Birta eiginkona hans hafa á undanförnum árum tekið átta börn í fóstur og ættleitt tvö þeirra. Hann segir það hafa verið sína stærstu gæfu í lífinu og að tenging þeirra hjónanna hafi dýpkað til muna.

„Við María eigum rosalega fallegt samband og erum mjög þakklát að eiga hvort annað að. Tengingin hefur svo bara dýpkað eftir að börnin komu inn í spilið. Það er langt og flókið ferli að verða fósturforeldri í Nevada og það er gengið mjög vel úr skugga um að barnið sé að koma í góðar aðstæður. Við erum búin að vera með átta fósturbörn á síðustu fjórum árum. Sem er mjög mikið ef maður hugsar út í það að öll þessi börn hafa verið nýfædd þegar við höfum tekið þau að okkur. Við höfum svo ættlætt tvær stelpur af þessum átta börnum.

Við eigum núna tvær dætur og erum með einn fósturson núna hjá okkur, þannig að við erum með þrjú börn undir þriggja ára aldri, sem er svolítið mikið. Sérstaklega þegar það eru enginn amma og afi eða frændi og frænka á svæðinu til að létta undir með okkur. En það sem við fáum út úr þessu er eitthvað sem er eiginlega ekki hægt að koma í orð. Við erum að þessu út af börnunum og það að fá að gera allt sem maður getur til að gefa þeim gott start út í lífið er eitthvað það besta sem hægt er að gera. Ég upplifi þetta þannig að tilgangurinn minn í lífinu sé fundinn. Hjartað mitt er svo fullt og það að við María fáum að upplifa þetta saman er stórkostlegt.”

„Elli Egils á vegginn“

Eitt vinsælasta lag síðustu ára á Íslandi ber nafn Ella í titlinum. Elli hélt upphaflega að lag Herra Hnetusmjörs væri grín.

„Þetta gerðist eiginlega þannig að ég vaknaði einn morguninn heima og sé að Árni [Herra Hnetusmjör] var búinn að senda mér myndband á Instagram. Í video-inu var hann á hlýrabol í hljóðveri að taka upp þetta viðlag. Þetta var bara einhver lína sem kom í höfuðið á honum þegar hann var að koma heim eitt kvöldið. Ég skildi ekki neitt þegar ég sá myndbandið og hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín. En svo sendir hann mér fleiri myndbönd þegar lagið fór að verða til fyrir alvöru. En upphafið var þetta móment þegar hann kemur heim og setur seðlabúnt á skenkinn fyrir neðan málverk sem hann hafði keypt af mér,” segir Elli.

Hann segir það hafa verið skrýtna tilfinningu að vinsælasta lag ársins á Íslandi væri með nafnið hans sem titil og viðlag.

„Þetta var sérstakt, af því að ég hef aldrei verið mikið fyrir sviðsljósið. Ég er meira bara á vinnustofunni minni að mála. En Árni og Þormóður sem gerðu lagið eru miklir snillingar og ég heyrði strax að þetta lag yrði að „hittara“. Ég fæ líklega svona fimmtán skilaboð í viku sem tengjast þessu lagi frá alls konar fólki.“

Hvítt fjall á kaffiborðinu

Talið berst að ferðalögum í þættinum og Elli og Sölvi hafa báðir verið oftar en einu sinni í Mexíkó. Elli segist halda mikið upp á bæði landið og líka fólkið frá Mexíkó.

„Ég held að það sé hugarfar í fólki frá Mexíkó sem er svipað og í okkur Íslendingum. Þetta er duglegt fólk með mikla þrautseigju og ég hef alltaf verið mjög hrifinn af Mexíkönum. Fólkið þaðan heldur á ákveðinn hátt hagkerfinu í Bandaríkjunum uppi. Án þeirra væru Bandaríkin ekki í góðum málum og það gleymist oft í umræðunni um innflytjendur og ólöglega innflytjendur.

Ég hef komið þarna á síðustu árum með Maríu konunni minni, en hafði komið á mínum yngri árum líka. Ég var einu sinni í hljómsveit sem heitir Steed Lord ásamt bræðrum mínum og við ferðuðumst út um allt og meðal annars til Mexíkó. Við kynntumst yndislegu fólki þarna, en maður sá líka skuggahliðarnar í landinu. Ég man eftir því þegar það var haldið partý sem var algjörlega varið af „cartelunum“ þarna í kring og við fengum VIP herbergi. Það fyrsta sem ég sá var hvítt fjall á kaffiborðinu. Ekki fjall eins og á myndunum mínum, heldur hvítt fjall á miðju borðinu sem átti bara að vera fyrir okkur í hljómsveitinni og það þótti ekkert tiltökumál. Við vorum ekkert mikið í þessu, þannig að það hefði líklega verið hægt að nýta þetta betur.”

Búsettur í Las Vegas

Elli er búsettur í Las Vegas eftir að hafa um árabil búið í Los Angeles. Í Vegas er hann með vinnustofu þar sem hann málar landslag. Málverk Ella eru aðallega byggð á íslenskri náttúru en þrátt fyrir að hafa ákveðinn stað á Íslandi í huga málar hann eftir eigin minni.

„Ég held það sé viðfangsefnið, þetta fallega landslag okkar Íslendinga. Ég reyni að fanga það eftir minni. Ég byrjaði að mála Herðubreið, það er eitt af fjöllunum sem ég hef ekki séð með mínum eigin augum. Ég er þakklátur og glaður að finna að verkin mín nái til margra á ólíkum aldri.

Ég áttaði mig á því fyrir sirka tíu árum að mér fannst vanta klassískan landslagsmálara af minni kynslóð. Við erum með Tolla, Guðrúnu Kristjáns og pabba, en mér fannst vanta einhvern á mínum aldri. Það að ég hafi fengið þessar frábæru viðtökur og að það sé svona mikil eftirspurn eftir verkunum mínum er eitthvað sem ég er virkilega þakklátur fyrir.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Ella og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is


Tengdar fréttir

Elli Egils hélt að Elli Egils væri grín

Myndlistamaðurinn Elli Egilsson Fox hélt fyrst að um grín væri að ræða þegar tónlistarmaðurinn Herra Hnetusmjör gaf út lag sem heitir eftir honum. Hann er búsettur í Bandaríkjunum og málar íslenskt landslag eftir minni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.