Lífið

Lauf­ey gerist rit­höfundur

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Laufey Lín kemur fram á tvennum tónleikum á Íslandi í mars.
Laufey Lín kemur fram á tvennum tónleikum á Íslandi í mars. Vísir/Getty

Tónlistarkonan Laufey hyggst gefa út barnabók á næsta ári titluð Mei Mei The Bunny. Aðalpersónan er byggð á lukkudýri söngkonunnar.

„Þetta er saga af lítilli kanínu sem dreymir um að gleðja heiminn með tónlistinni sinni!“ skrifar tónlistarkonan á Instagram-síðunni sinni.

Þetta eru ekki fyrstu skref hvítu kanínunnar Mei Mei en hún hefur verið eins konar lukkudýr Laufeyjar. Mei Mei þýðir yngri systir á kínversku og notar Laufey nafnið Mei Mei The Bunny til að gefa út annars konar útgáfur af lögunum sínum. Þeirra á meðal er hraðari útgáfa af laginu From The Start sem varð afar vinsælt á samfélagsmiðlinum TikTok.

Fyrir tæpu ári síðan var Instagram-síða sett á laggirnar fyrir kanínubangsann þar sem karakterinn Mei Mei er kynntur til sögunnar. Þar má til dæmis læra að Mei Mei elskar piparmyntute og garðyrkju. Kanínubangsarnir voru síðar settir á sölu og seldust samstundis upp.

Núna hefur Laufey skrifað sögu Mei Mei í bókinni sem Lauren O'Hara myndskreytir. Bókin er gefin út af Penguin Random House og kemur út í apríl 2026.

Laufey er nú á tónleikaferðalagi í kjölfar útgáfu plötunnar A Matter of Time. Ferðalaginu lýkur með tvennum tónleikum í Kórnum í Kópavogi um miðjan mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.