Körfubolti

Kostu­leg langstökkskeppni Nablans og Tomma Stein­dórs: „Á ég að spretta?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Már Eggertsson lendir í sandgryfjunni.
Andri Már Eggertsson lendir í sandgryfjunni. vísir/sýn sport

Hvernig ætli Andra Má Eggertssyni, Nablanum, og Tómasi Steindórssyni gengi í langstökki? Svarið við þeirri spurningu fékkst í Bónus Körfuboltakvöldi extra í gær.

Extra-leikarnir eru fastur liður í Bónus Körfuboltakvöldi extra en þeir spreyta Nablinn og Tommi sig í ýmsum íþróttagreinum. Í fyrsta þættinum kepptu þeir í sextíu metra hlaupi og nú var komið að langstökki.

Nablinn var kokhraustur fyrir keppnina og skildi fullkomlega af hverju Stefán Árni Pálsson hafði trú á honum í langstökkinu.

„Þú ert ekki einn um það. Þetta er greinin sem ég horfði á áður en við komum hingað, að ég myndi taka,“ sagði Nablinn.

Klippa: Extra-leikarnir: Langstökk

Tommi var sparari á yfirlýsingarnar enda enn að ná sér eftir sextíu metra hlaupið.

„Fyrir áhorfendur er kannski svolítið langt síðan við kepptum í spretthlaupi en raunverulega eru þetta fimm mínútur. Ég fékk aðeins í nárann eftir sprettinn. Ég held að ég vinni hann samt rétt eins og ég gerði í spretthlaupinu,“ sagði Tommi.

„Hann var byrjaður með afsakanir áður en við byrjuðum í spretthlaupinu en þetta er bara nýr þáttur og ný keppni.“

Eins og í spretthlaupinu sýndi Silja Úlfarsdóttir Nablanum og Tomma tökin í langstökkinu. Hún átti þó býsna erfitt með að halda andliti þegar hún sá aðfarir Nablans.

„Á ég að spretta?“ spurði hann eftir fyrsta stökkið sem var kolólöglegt.

Í spilaranum hér fyrir ofan má svo sjá hvernig þetta gekk allt fyrir sig, hvort Nablinn náði að svara fyrir sextíu metra hlaupið eða hvort Tommi náði í annan vinning. Þar má einnig sjá vandræði Stefáns Árna við að mæla stökk en það vafðist verulega fyrir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×