Fótbolti

Fíaskó Svía ætlar engan endi að taka

Sindri Sverrisson skrifar
Liverpool-framherjinn Alexander Isak náði ekki að redda Svíum.
Liverpool-framherjinn Alexander Isak náði ekki að redda Svíum. Getty/Mateusz Slodkowski

Svíar, með stjörnuframherjana Alexander Isak og Viktor Gyökeres í fremstu víglínu, töpuðu í annað sinn á rúmum mánuði fyrir Kósovó í kvöld, aftur án þess að skora mark, og hafa svo gott sem kastað HM-draumnum á glæ.

Svíþjóð tapaði 2-0 á útivelli gegn Kósovó í síðasta mánuði og var því lýst sem algjöru hneyksli, og kallað eftir því að Jon Dahl Tomasson yrði rekinn sem landsliðsþjálfari.

Svíar töpuðu svo á heimavelli gegn Kósovó í kvöld, 1-0, og má ætla að Tomasson endist ekki mikið lengur í starfi. Fisnik Asllani skoraði sigurmarkið á 32. mínútu.

Í hinum leiknum í B-riðli gerðu Slóvenía og Sviss markalaust jafntefli. Sviss er því efst í riðlinum þegar tvær umferðir eru eftir, með 10 stig. Kósovó er með 7 stig, Slóvenía 3 og Svíþjóð 1.

Woltemade tryggði Þýskalandi sigur

Newcastle-framherjinn Nick Woltemade er áfram í stuði og skoraði sigurmark Þýskalands gegn Norður-Írlandi, í 1-0 sigri á útivelli. Slóvakía vann Lúxemborg 2-0 í sama riðli. Þýskaland og Slóvakía eru efst með 9 stig hvort en Norður-Írland með 6 og Lúxemborg 0.

Mikilvægur sigur Belga

Í J-riðli vann Belgía mikilvægan 4-2 útisigur gegn Wales þar sem Kevin De Bruyne skoraði tvö mörk. Norður-Makedónía og Kasakstan gerðu 1-1 jafntefli. Belgía er nú efst í riðlinum með 14 stig, Norður-Makedónía með 13 og Wales með 10, en Norður-Makedónía á aðeins einn leik eftir og hin tvo.

Efsta lið hvers riðils kemst beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×