Handbolti

Lang­þráður sigur FH fyrir austan fjall

Sindri Sverrisson skrifar
Símon Michael Guðjónsson raðaði inn mörkum á Selfossi í kvöld.
Símon Michael Guðjónsson raðaði inn mörkum á Selfossi í kvöld. vísir/Anton

Eftir að hafa aðeins fengið eitt stig úr síðustu þremur leikjum, gegn Þór, HK og Stjörnunni, fögnuðu FH-ingar nokkuð öruggum sigri gegn Selfossi fyrir austan fjall í kvöld, í Olís-deild karla í handbolta, 33-28.

FH var 14-11 yfir í hálfleik en eftir að heimamenn höfðu minnkað muninn í eitt mark, 15-14, 16-15 og loks 17-16, stungu FH-ingar af og náðu mest sjö marka forskoti, til að mynda 28-21 þegar rúmar sjö mínútur voru eftir. Leiknum lauk svo með öruggum fimm marka sigri.

Samkvæmt tölfræði HB Statz var Símon Michael Guðjónsson markahæstur hjá FH með átta mörk úr níu skotum, Garðar Ingi Sindrason skoraði sjö og Bjarki Jóhannsson sex. Hjá Selfossi var Hannes Höskuldsson langmarkahæstur með 11 mörk úr 13 skotum, og Hákon Garri Gestsson skoraði sex.

FH er núna með sjö stig í 5.-6. sæti ásamt Stjörnunni en Selfoss situr eftir í 8. sæti með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×