Erlent

Rússar uggandi vegna tals um Tomahawk flaugar fyrir Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí ræddi við Fox News í gær og ef marka má ummæli hans fékk hann engin afgerandi svör um Tomahawk flaugarnar þegar hann talaði við Trump í síma á laugardag. Myndin er frá því í ágúst.
Selenskí ræddi við Fox News í gær og ef marka má ummæli hans fékk hann engin afgerandi svör um Tomahawk flaugarnar þegar hann talaði við Trump í síma á laugardag. Myndin er frá því í ágúst. Getty/Alex Wong

Stjórnvöld í Rússlandi hafa lýst yfir áhyggjum vegna tals um að Bandaríkin séu að íhuga að sjá Úkraínumönnum fyrir Tomahawk eldflaugum til að gera árásir á skotmörk í Rússlandi.

Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Pútín Rússlandsforseta, sagði í samtali við ríkismiðla í Rússlandi í gær að markverð tímamót væru að eiga sér stað, þar sem spenna væri að stigmagnast á alla kanta.

Alexander Lukashenko, forseti Belarús og náin bandamaður Pútín, sagðist á sama tíma efa að Trump myndi láta af verða. „Ég held að við ættum að róa okkur hvað þetta varðar. Donald vinur okkar; stundum nálgast hann málin af hörku en svo er það taktíkin hans að slá aðeins af og taka skref til baka,“ sagði Lukashenko.

Menn ættu ekki að taka orð Bandaríkjaforseta bókstaflega.

Trump nefndi mögleikann á að senda Tomahawk flaugar til Úkraínu þegar hann ræddi við blaðamenn um borð í Air Force One á leið sinni til Mið-Austurlanda.

„Það getur verið að ég ræði við hann,“ sagði Trump um Pútín. „Það getur verið að ég segi: Sjáðu til, ef það finnst ekki lausn á þessu þá sendi ég þeim Tomahawk flaugar.“

Trump sagði Vólódimír Selenskí Úkraínuforseta hafa beðið um Tomahawk flaugar í samtali á laugardag, þegar forsetarnir ræddu um frekari vopnasendingar. Bandaríkjaforseti sagði að ef svo færi að hann sendi Úkraínu langdrægar flaugar fæli það klárlega í sér stigmögnun.

„Vilja þeir Tomahawk flaugum skotið í áttina að sér? Ég held ekki,“ sagði hann um Rússa.

Trump sagði í síðustu viku að hann hefði „eiginlega“ þegar tekið ákvörðun hvað þetta varðaði. Pútín hefur fyrir sitt leyti varað Bandaríkjamenn við að taka það skref að sjá Úkraínumönnum fyrir langdrægum vopnum til að gera árásir á Rússland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×