Lífið

Fagnar gagn­rýni á „rasshausa-ummæli“ sín

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Baldvin Z hefur dregið í land vegna ummæla hans um konur í vondu skapi á blæðingum á tökustað.
Baldvin Z hefur dregið í land vegna ummæla hans um konur í vondu skapi á blæðingum á tökustað. Vísir/Vilhelm

Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður segist hjartanlega sammála umræðunni sem skapast hefur í kringum ummæli sem hann lét falla í síðdegisútvarpinu á Rúv í gær. Í þættinum sagði hann að á tökustað þyrfti maður að vera tilbúinn fyrir alls kyns uppákomur, til dæmis leikkonu á blæðingum sem sé í vondu skapi.

Viðfangsefni þáttarins var gervigreindarleikkonan Tilly Norwood, sem vakið hefur athygli undanfarnar vikur. Baldvin sagði ekki hljóma spennandi fyrir leikstjóra að vinna með gervigreindarleikkonu, þar sem fegurðin í að búa til góða senu komi alltaf úr óvæntri átt. 

„Þú getur bara verið með konu sem er á túr og hún er í vondu skapi þennan dag. Við þurfum bara að díla við það á setti og einhvern veginn embrace-a það inn í verkið,“ sagði Baldvin í þættinum. 

Sjá einnig: Maður geti þurft að díla við „konu sem er á túr“ og í vondu skapi

Leikkonur hafa síðan gantast með þetta orðalag Baldvins. „Aðdáunarvert hvernig Baldvin Z nær að díla við leikkonur sem eru á túr og í vondu skapi og nær að „embrace-a“ það inn í verkin sín,“ skrifaði Dóra Jóhannsdóttir, leikkona, handritshöfundur og leikstjóri á Facebook. 

„Baldvin Z hefur lent í HRÆÐILEGUM HLUTUM á setti!!“ sagði Steiney Skúladóttir leikkona og sketsahöfundur. 

Baldvin hefur síðan dregið í land.

„Ég er hjartanlega sammála þeirri umræðu sem hefur skapast í kringum þau rasshausa ummæli sem ég sagði í viðtali í síðdegisútvarpinu. 

Ég fagna þeirri gagnrýni sem ég hef fengið og tek til mín að þetta var bæði gamaldags og hallærislegt. 

Sem betur fer lifum við í samfélagi sem lætur ekki bjóða sér þetta,“ skrifar Baldvin í hringrás á Instagram. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.