Fótbolti

„Sætið tryggt og nú er að klára for­seta­bikarinn“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Óskar Smári á hliðarlínunni fyrr í sumar
Óskar Smári á hliðarlínunni fyrr í sumar Vísir/Anton Brink

Fram tryggði sér áframhaldandi sæti í Bestu deild kvenna með 4-0 sigri á FHL. Flott frammistaða liðsins sýndi að liðið á fullt erindi í deild þeirra Bestu.

„Verðskuldaður sigur fannst mér og frábær frammistaða hjá stelpunum. Ég er ótrúlega stoltur af stelpunum og þakklátur þeim fyrir þá vinnu sem þær hafa lagt á sig til þess að ná markmiðinu sem við settum okkur að halda sæti okkar í deildinni á fyrsta ári,“ - sagði Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram, ánægður eftir leik liðsins.

FHL mættu af krafti út í seinni hálfleik og náðu að lyfta liði sínu ofar á völlinn. Fram náði þó að gera vel þann kafla sem liðið lá neðar á vellinum.

„Ég hafði smávegis áhyggjur af liðinu á tíu mínútna kafla þarna í seinni hálfleik. Þetta er ekki það sem liðið setti stefnu á í hálfleik. Við ætluðum að halda áfram og sækja þriðja markið en við droppum niður. Við verðum að bera virðingu fyrir því að við erum að spila á móti mjög góðu liði FHL, þær eru seigar og eru ekki á þeim stað sem þær eiga að vera á. Það hefur verið stöngin út hjá þeim í sumar. En þær hafa gæða burði í sínu liði til þess að koma góðum liðum niður á sinn eigin vítateig og liggja á þeim.“

„Við erum alls ekki hættar, við eigum eftir að spila tvo leiki og við ætlum að gera það vel. Við mætum Tindastól í næstu viku og við ætlum að mæta þeim af krafti en á sama tíma leggja smá undirbúningsvinnu fyrir næsta tímabil. Skoða leikmenn sem hafa fengið að spila minna og prófa ný kerfi. Það er margt sem hefur blundað í mér og sem mig hefur langað að gera en höfum kannski ekki geta gert. Sætið tryggt og nú er að klára forsetabikarinn, sem er sjöunda sæti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×