Upp­gjörið: Haukar - Njarð­vík 83-86 | Njarð­vík meistari meistaranna eftir kaflaskiptan leik

Hjörvar Ólafsson skrifar
515337408_24251156534510462_6396331892860052116_n
vísir/hulda margrét

Íslandsmeistarar Hauka mættu bikarmeisturum Njarðvíkur í Meistarakeppni kvenna í körfubolta í Ólafssal að Ásvöllum í kvöld. Njarðvík var spáð efsta sæti í spám bæði fjölmiðla og forráðamanna félaganna í Bónus-deild kvenna á kynningarfundi KKÍ á dögunum. Njarðvíkingar byrjuðu tímabilið vel með sigri í þessum leik og eru meistarar meistaranna.

Njarðvík hóf leikinn betur en Njarðvíkingar náðu fljótlega tíu stiga forystu 12-2 og voru tæplega stigum yfir fram í seinni hluta fyrsta leikhluta. Eftir það vöknuðu Haukar til lífsins og leikurinn jafnaðist. Njarðvík fór hins vegar með 28-24 forskot inn í fyrstu fjórðungaskiptin.

Haukar komu aftur á móti sterkari inn í annan leikhluta og þegar skammt var eftir af leikhlutanum jafnaði Amandine Justine Toi metin af vítalínunni. Amandine Justine Toi kom svo Haukum yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar tæp mínúta var eftir af fyrri hálfleik.

Leikmenn Hauka hömruðu járnið á meðan það var heitt og þá einkum og sér í lagi Amandine Justine Toi sem skoraði 18 stig í fyrri hálfleik. Haukar skoruðu síðustu fimm stig annars leikhluta og voru 47-42 yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Amandine Justine Toi hélt áfram frá því sem frá var horfið og opnaði þriðja leihluta með þriggja stiga körfu. Krystal-Jade Freeman vildi ekki vera eftirbátur liðsfélaga síns og þær voru máttarstólpar í því að byggja upp stiga mun 57-47 um miðjan þriðja leikhluta.

Þá var komið að Njarðvík að taka áhlaup þar sem Brittany Dinkins og Danielle Rodriguez voru í aðalhlutverki. Krista Gló Magnúsdóttir minnkaði muninn í 59-55 með þriggja stiga körfu undir lok leikhlutans og Njarðvík var svo 69-65 yfir þegar liðin voru á leiðinni inn í fjórða og síðasta leikhlutann.

Leikmenn Njarðvíkur juku svo forystu sína jafnt og þétt í fjórða leihluta og Helena Rafnsdóttir kom Njarðvíkurliðinu í 81-70 þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Margir héldu að Brittany Dinkins væri búin að slökkva þann litla vonarneista sem var í Haukum með öðrum þristi skömmu síðar.

Haukar áttu hins vegar eitt áhlaup enn inni í pokahorninu og Amandine Justine Toi minnkaði muninn í 86-83 þegar rúmlega 10 sekúndur voru eftir af leiknum. 

Haukar fengu boltann aftur en Amandine Justine Toi komst ekki upp í þriggja stiga skot til að koma leiknum í framlengingu þannig að Njarðvík fór að lokum með 86-83 sigur af hólmi og tryggði sér fyrsta titil keppnistímabilsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira