Sport

Aldar­fjórðungur síðan Vala vann bronsið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vala Flosadóttir, Stacy Dragila og Tatiana Grigorieva á verðlaunapallinum eftir keppni í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney fyrir aldarfjórðungi.
Vala Flosadóttir, Stacy Dragila og Tatiana Grigorieva á verðlaunapallinum eftir keppni í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney fyrir aldarfjórðungi. getty/Mike Powell

Í dag, 25. september, eru nákvæmlega 25 ár síðan Vala Flosadóttir vann til bronsverðlauna í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney.

Vala lyfti sér yfir 4,50 metra í úrslitunum og setti Íslandsmet. Hún reyndi þrívegis við 4,55 metra en felldi í öll skiptin.

Stacy Dragila frá Bandaríkjunum vann gullið í stangarstökki í Sydney en það var í fyrsta sinn sem keppt var í greininni á Ólympíuleikum. Dragila stökk 4,60 metra. Í 2. sæti varð heimakonan Tatiana Grigorieva en hún lyfti sér yfir 4,55 metra.

Vala er eina íslenska konan sem hefur unnið til verðlauna á Ólympíuleikum. Vilhjálmur Einarsson vann silfur í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, Bjarni Friðriksson brons í júdó í Los Angeles 1984 og karlalandsliðið í handbolta sigur í Peking 2008.

Vala var í hópi bestu stangarstökkvara heims í kringum aldamótin og setti tvívegis heimsmet innanhúss. Hún varð Evrópumeistari innanhúss í stangarstökki 1996 með stökki upp á 4,16 metra, vann silfur á EM unglinga 1997, brons á EM innanhúss 1998 (4,40 metrar), silfur á HM innanhúss 1999 (4,45 metrar) og gull á EM U-23 ára sama ár (4,30 metra). Þá varð Vala í 4. sæti á EM innanhúss 2000, nokkrum mánuðum áður en hún vann bronsið í Sydney.

Á árunum 1994-2000 setti Vala átta Íslandsmet í stangarstökki. Metið sem hún setti í Sydney stóð í tæp fjögur ár eða þar til Þórey Edda Elísdóttir lyfti sér yfir 4,54 metra í júní 2004. Það met stendur enn.

Vala var valinn Íþróttamaður ársins 2000 og var tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×