Skoðun

Ís­land og móðurplanta með erindi

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar

Í aldaraðir hafa hampur og kannabis verið hluti af lífi mannsins – notað meðal annars til lækninga, næringar, textílframleiðslu og í byggingariðnaði. Þessi planta hefur þjónað okkur í gegnum aldirnar en á Íslandi er umræða um enn hana sveipuð fáfræði og fordómum.

Við erum langt á eftir öðrum þjóðum þegar kemur að því að viðurkenna lækningamátt kannabis. Í mörgum löndum er lækningakannabis notað á ábyrgan hátt til að lina sársauka, vinna gegn ógleði og bæta lífsgæði fólks sem glímir við erfið veikindi og einkenni. Ég lærði og sá hvernig plantan líknaði þegar hefðbundin úrræði dugðu skammt. Kannabis var það eina sem sló á ógleði og vanlíðan af völdum krabbameinsmeðferða í tilfelli Stefáns Karls heitins og ótal krabbameinssjúklingar á Íslandi hafa sömu sögu að segja. Þetta eru ekki sögur úr fjarlægum heimi heldur raunveruleg reynsla fólks hér á landi sem er að nota kannabis með frábærum árangri við allskyns kvillum.

Lyklarnir í líkamanum

Við vitum líka nú að líkaminn sjálfur býr yfir endókannabíóðakerfi. Þetta innbyggða kerfi er ekki tilviljun heldur hluti af starfsemi allra spendýra. Það er eins og líkaminn sé með lykil að plöntunni, og spurningin er einföld: viljum við læra að nýta þennan lykil af ábyrgð og þekkingu, eða halda áfram að loka augunum fyrir því sem vísindin sýna?

Umræðan hér á landi hefur lengi verið föst í gamaldags hugmyndum um að allt sem tengist kannabis sé neysla eða flótti. En það er kominn tími til að breyta orðræðunni. Kannabis getur verið kennari, jafnvægisgjafi og heilari. Það er verkefni okkar að nálgast plöntuna af umhyggju og forvitni í stað hræðslu og fordóma.

Það er ljóst að við þurfum að ræða málin opinskátt – ekki aðeins í lagalegu eða stjórnmálalegu samhengi heldur líka útfrá þeim einstaklingunum sem þurfa á plöntunni að halda og verða að öðlast frelsi til að velja eigin lækningaleiðir án þess að eiga það á hættu að vera sakfellt fyrir sjálfsbjörgina í afturhaldssömu lagaumhverfi.

Í byrjun október verður haldin ráðstefna í Reykjavík, Hemp4Future, þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar ræða allt sem viðkemur iðnaðarhampi og lækningakannabis. Ráðstefnan er öllum opin enda er hún mikilvægt skref í átt að upplýstri umræðu um hvernig við sem samfélag getum nálgast hamp og kannabis á vitiborinn hátt – án skuggans sem hingað til hefur hvílt yfir plöntunni á Íslandi.

Höfundur er leikkona.




Skoðun

Sjá meira


×