Erlent

Ekki stað­fest hvort það hafi verið drónar sem röskuðu flug­um­ferð í Osló

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Umferð um Gardemoen flugvöll í Osló var lokað í um þrjár klukkustundir í fyrrinótt.
Umferð um Gardemoen flugvöll í Osló var lokað í um þrjár klukkustundir í fyrrinótt. EPA/Javad Parsa

Það er enn óvíst hvort það hafi raunverulega verið drónar sem urðu þess valdandi að lokað var fyrir flugumferð á Gardemoen-flugvelli í Osló í fyrrinótt. Gengið hefur verið út frá því í fréttum af málinu að um dróna hafi verið að ræða en nú segir lögreglustjóri í Osló að það sé óljóst hvort það voru drónar eða eitthvað annað sem var á sveimi við flugvöllinn.

Í samtali við norska ríkisútvarpið NRK segir Håkon Skulstad ríkislögreglustjóri að það sé ekki einhugur um hvað það var sem sást í loftinu umrætt kvöld. „Það er enn óljóst hvað það var sem sást. Það er uppi ólíkur skilningur á því hvað það var sem vart varð við,“ segir Skulstad.

Nú standi yfir rannsókn á því og öflun gagna sem flugmálastofnunin Avinor, herinn og fleiri aðilar komi að til að unnt sé að setja í samhengi og skera úr um hvað það var sem raunverulega gerðist. „En það er enn óljóst hvort það voru drónar eða ekki,“ bætir hann við.

Þannig gæti verið að sögn lögreglustjórans að einhvers konar ljós eða himintungl geti hafa verið talin vera drónar. Bæði starfsfólk flugvallarins og lögregla hafi þó séð með eigin augum eitthvað á lofti sem gætu hafa verið drónar, en það sé þó ekki stafest hvort svo hafi verið. Ljósin sem sáust gætu hafa stafað af einhverju öðru.

Lokað var fyrir flugumferð vegna málsins í um þrjá klukkutíma aðfaranótt þriðjudags, en fyrr sama kvöld höfðu þrír drónar sést á lofti yfir Kastrup flugvelli í Kaupannahöfn. Í danska tilfellinu liggur hins vegar ljóst fyrir að um dróna var vissulega að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×