Veður

Víða kaldi og all­hvasst en lægir smám saman í dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Víða verður kaldi og sums staðar allhvasst í dag.
Víða verður kaldi og sums staðar allhvasst í dag. Vísir/Anton Brink

Í dag er norðanáttin gengin niður á Vesturlandi, en annars staðar er víða kaldi og sums staðar allhvassir eða hvassir vindstrengir. Til dæmis undir Vatnajökli og á sunnanverðum Austfjörðum.

Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings lægir smám saman í dag, en ekki fyrr en í kvöld austast á landinu. Það verður yfirleitt léttskýjað, en lítilsháttar skúrir eða él á Austurlandi fram að hádegi. Hiti verður á bilinu tvö til tíu stig yfir daginn, mildast syðst.

Á morgun má búast við vestan og suðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu. Grunn lægð samkvæmt hugleiðingum austur skammt fyrir norðan land og má samhliða búast við rigningu víðast hvar, þó síst suðaustantil. Þá á aðeins að hlýna norðan heiða, en annars breytist hiti lítið.

Á vef Vegagerðar kemur fram að á öllu landinu er víða hálka og hálkublettir á fjallvegum en síst á Suðurlandi. Hálkublettir eru til dæmis á Holtavörðuheiði, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Nánar er fjallað um það á færð vega á vef Vegagerðar og veður á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Vestan og suðvestan 5-13 m/s og rigning, en úrkomulítið suðaustantil á landinu. Hiti 3 til 9 stig.

Á mánudag (haustjafndægur):

Suðlæg eða breytileg átt 3-10 og lítilsháttar væta, en léttir til á Norður- og Austurlandi. Hiti 5 til 13 stig. Vaxandi suðaustanátt vestanlands um kvöldið.

Á þriðjudag:

Suðlæg átt og súld eða rigning, en þurrt um landið norðaustanvert. Hiti 8 til 13 stig.

Á miðvikudag:

Breytileg átt og víða dálítil væta. Kólnar heldur vestantil.

Á fimmtudag og föstudag:

Suðaustanátt og milt veður. Rigning með köflum, einkum á sunnanverðu landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×