Erlent

Segir að Navalní hafi verið myrtur í fangelsinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Júlía Navalnaja segir eiginmann sinn hafa verið myrtan. Hún er sjálf skotmark rússneskra stjórnvalda sem líða ekkert andóf.
Júlía Navalnaja segir eiginmann sinn hafa verið myrtan. Hún er sjálf skotmark rússneskra stjórnvalda sem líða ekkert andóf. Vísir/EPA

Ekkja Alexei Navalní, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans heitins, fullyrðir að honum hafi verið ráðinn bani í fangelsi. Niðurstöður rannsókna á lífsýni úr honum sýni að eitrað hafi verið fyrir honum.

„Þessar rannsóknastofur í tveimur ólíkum löndum komust að sömu niðurstöðu: Alexei var drepinn. Nánar tiltekið, það var eitrað fyrir honum,“ skrifaði Júlía Navalnaja á samfélagsmiðilinn X í dag. Hún tilgreindi ekki hvað eitur ætti að hafa verið notað.

Sagði hún að lífsýnum úr eiginmanni hennar hefði verið smyglað úr landi í fyrra og þau send á rannsóknastofurnar, að því er segir í frétt Reuters.

Navalní lést skyndilega í afskekktu fangelsi í norðanverðu Rússlandi í febrúar í fyrra. Hann afplánaði þar nítján ára fangelsisdóm sem hann fullyrti að ætti sér pólitískar rætur.

Navalnaja hefur frá upphafi haldið því fram að eiginmaður hennar hafi verið drepinn í fangelsinu en því hafa stjórnvöld í Kreml neitað. Niðurstaða opinberrar rannsóknar var að Navalní hefði látist af völdum nokkurra sjúkdóma. Vladímír Pútín forseti veitti fangelsismálastjóra sínum vegtyllu þremur dögum eftir dauða Navalní í fangelsi hans.

Eitrað var fyrir Navalní árið 2020. Hann var þá fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Þrátt fyrir banatilræðið sneri hann aftur til Rússlands árið eftir. Þar var hann handtekinn, meðal annars á þeim forsendum að hann hefði rofið skilorð með því að gefa sig ekki reglulega fram við rússnesk yfirvöld á meðan hann lá í dái eftir eitrunina.

Ríkisstjórn Vladímírs Pútín forseta hafa lýst stjórnmálahreyfingu Navalní ólögleg öfgasamtök. Á þeim grundvelli hafa þau sótt ýmsa bandamenn Navalní til saka. Gáfu þau nýlega út handtökuskipun á hendur ekkju Navalní fyrir að eiga aðild að „öfgasamtökunum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×