Skoðun

Hærri greiðslur í fæðingar­or­lofi

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Nú þegar Alþingi kemur saman að hausti er ljóst að það er verk að vinna. Á fyrstu mánuðum ríkisstjórnar hafa verið stigin stór og mikilvæg skref í málefnum samfélagsins. Má þar nefna réttlætið í því að þjóðin njóti sanngjarnari hlut af nýtingu auðlinda sem eru í eigu þjóðarinnar. Þetta skref var mikilvægt.

Framundan eru hins vegar fjölmörg önnur mál. Eitt þeirra snertir málefni foreldra en á þessu haustþingi mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp sem hefur það markmið að tryggja öllum foreldrum sömu hámarksgreiðslur þegar foreldrar nýta fæðingarorlof til að sinna börnum sínum. Í dag er það þannig að hámarksgreiðsla tekur mið af því hvenær barnið er fætt. Þar sem foreldrar geta nýtt fæðingarorlof í allt að þrjú ár eftir fæðingu barns þá getur foreldri verið fast í hámarksgreiðslu sem gilti fyrir tveimur árum.

Þegar frumvarpið verður komið í gegnum þinglega meðferð mun hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi verða 900.000 kr. á mánuði en þó að hámarki 80% af tekjum viðkomandi á viðmiðunartímabili tekna. Þá mun ekki skipta máli hvenær barn sé fætt, aðeins að foreldri eigi rétt á fæðingarorlofi.

Það er mikið réttlætismál að foreldrar njóti greiðslna í fæðingarorlofi sem séu í samræmi við þær efnahagslegu aðstæður þess tíma sem fæðingarorlof er tekið.

Það er ánægjulegt að nú þegar hafa verið gerðar mikilvægar breytingar á fæðingarorlofslögum en á vorþingi var réttur fjölburaforeldra aukinn þannig að foreldrar njóta fleiri mánaða þegar um fjölbura er að ræða. Enn fremur er réttur mæðra aukinn þegar veikindi verða á meðgöngu. Allt er þetta gert til þess að bæta stöðu nýbakaðra foreldra og ýta undir lengri samverusundir með börnum sínum.

Ljóst er að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur sýnir í verki að hagsmunir fólksins ráða för.

Höfundur er þingmaður Samfylkingar.




Skoðun

Sjá meira


×