Viðskipti innlent

Systurfélag ÞG verk­taka kaupir Arnarland

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Arcus ehf. er systurfélag ÞG verktaka í eigu Þorvalds Gissurarsonar. 
Arcus ehf. er systurfélag ÞG verktaka í eigu Þorvalds Gissurarsonar.  Arnarland/Lýður

Eigendur Arnarlands ehf., Landey ehf. og Fasteignafélagsins Akurey ehf., hafa ákveðið að ganga til samningaviðræðna við fasteignaþróunarfélagið Arcus ehf. um kaup félagsins á öllu hlutafé Arnarlands, sem á níu hektara land á Arnarneshálsi í Garðabæ. Gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði á svæðinu. 

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á vef Arion banka. Þar segir að ákvörðunin sé tekin í kjölfar söluferlis sem byggði á útboðsfyrirkomulagi.

Arcus ehf., sem er í eigu Þorvaldar Gissurarsonar, er systurfélag byggingafyrirtækisins ÞG verktaka sem Þorvaldur stofnaði árið 1998. Arcus var stofnað árið 2004. 

„Gert er ráð fyrir glæsilegri íbúðabyggð í Arnarlandi þar sem heimilt er að reisa allt að 451 íbúðareiningu, samtals um 50.000 fermetra af íbúðarhúsnæði. Einnig er heimild fyrir allt að 36.000 fermetrum af atvinnuhúsnæði á svæðinu,“ segir í fréttatilkynningu.

Gert er ráð fyrir um 450 íbúðum sem og atvinnuhúsnæði á reitnum.Arnarland

Íbúar í nágrenninu hafa lýst yfir áhyggjum af hinni nýju byggð, sagt að hún taki ekki tillits til nágrennisins og komi til með að skerða útsýni íbúa Smárahverfisins í Kópavogi verulega. Almar Guðmundsson bæjarstjóri í Garðabæ sagðist í fyrra hafa þegar brugðist við ábendingum á fyrri stigum áætlunarinnar og að tekið yrði tillit til athugasemda íbúa. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×