Sport

Fékk tveggja vikna bann og sekt fyrir að hrinda starfs­manni lyfja­eftir­lits

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lleyton Hewitt vann Opna bandaríska meistaramótið 2000.
Lleyton Hewitt vann Opna bandaríska meistaramótið 2000. epa/Jonas Ekstromer

Lleyton Hewitt, fyrirliði ástralska landsliðsins sem tekur þátt í Davis-bikarnum í tennis, hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna bann fyrir að hrinda starfsmanni lyfjaeftirlits.

Hewitt ýtti sextugum starfsmanni lyfjaeftirlits eftir tap Ástralíu fyrir Ítalíu í Davis-bikarnum í nóvember á síðasta ári. 

Hann var kærður í janúar og hefur nú fengið tveggja vikna bann. Auk þess þarf Hewitt að greiða sekt sem nemur tæplega tveimur og hálfri milljón íslenskra króna.

Hewitt hafnaði sök og bar fyrir sig sjálfsvörn. Alþjóðanefnd heilinda í tennis (ITIA) hafnaði þeirri skýringu Ástralans og sagði að ekki væri hægt að túlka þetta sem sjálfsvörn og Hewitt hefði hrint starfsmanninum með offorsi.

Framkvæmdastjóri ITIA, Karen Moorhouse, sagði að starfsmenn lyfjaeftirlits gegni mikilvægu hlutverki í að viðhalda heilindum íþróttarinnar og eigi að geta sinnt sínum störfum án þess að þurfa að óttast að verða fyrir árásum. Því hafi ekki annað verið í stöðunni en að dæma Hewitt í bann.

Bann Hewitts tekur gildi 24. september og lýkur 7. október. Hann getur því tekið þátt þegar Ástralía mætir Belgíu í 2. umferð undankeppni Davis-bikarsins um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×