Englendingar skoruðu fimm í Serbíu Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar 9. september 2025 18:17 Harry Kane elskar að skora mörk. EPA/ANDREJ CUKIC England lenti ekki í teljandi vandræðum gegn Serbíu í Belgrað þegar þjóðirnar mættust í undankeppni HM 2026. Eftir „aðeins“ 2-0 sigur á Andorra í síðustu umferð undankeppninnar var enska pressan þegar byrjuð að kveikja undir sæti Thomas Tuchel þjálfara. Hans menn svöruðu hins vegar með frábærum leik í kvöld. Það var að sjálfsögðu Harry Kane sem kom Englandi yfir þegar rúmur hálftími var liðinn. Örskömmu síðar hafði Noni Madueke tvöfaldað forystuna og staðan 0-2 í hálfleik. Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar Ezri Konsa skoraði þriðja mark Englands og heimamenn misstu endanlega móðinn. Þegar tæplega tuttugu mínútur lifðu leiks fékk Nikola Milenković beint rautt spjald í liði Serbíu og nýttu gestirnir sér liðsmuninn. Marc Guéhi, sem hafði lagt upp mark Konza, bætti við fjórða marki Englands eftir undirbúning Declan Rice sem hafði einnig lagt upp fyrsta mark leiksins. Marcus Rashford skoraði svo fimmta markið af vítapunktinum og þar við sat. England er því með fullt hús stiga eftir fimm leiki í K-riðli og markatöluna 13-0. HM 2026 í fótbolta Enski boltinn
England lenti ekki í teljandi vandræðum gegn Serbíu í Belgrað þegar þjóðirnar mættust í undankeppni HM 2026. Eftir „aðeins“ 2-0 sigur á Andorra í síðustu umferð undankeppninnar var enska pressan þegar byrjuð að kveikja undir sæti Thomas Tuchel þjálfara. Hans menn svöruðu hins vegar með frábærum leik í kvöld. Það var að sjálfsögðu Harry Kane sem kom Englandi yfir þegar rúmur hálftími var liðinn. Örskömmu síðar hafði Noni Madueke tvöfaldað forystuna og staðan 0-2 í hálfleik. Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar Ezri Konsa skoraði þriðja mark Englands og heimamenn misstu endanlega móðinn. Þegar tæplega tuttugu mínútur lifðu leiks fékk Nikola Milenković beint rautt spjald í liði Serbíu og nýttu gestirnir sér liðsmuninn. Marc Guéhi, sem hafði lagt upp mark Konza, bætti við fjórða marki Englands eftir undirbúning Declan Rice sem hafði einnig lagt upp fyrsta mark leiksins. Marcus Rashford skoraði svo fimmta markið af vítapunktinum og þar við sat. England er því með fullt hús stiga eftir fimm leiki í K-riðli og markatöluna 13-0.