Fótbolti

Tví­vegis hent frá sér tveggja marka for­ystu í Frakk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Bjarnason kunni vel við sig í Frakklandi.
Birkir Bjarnason kunni vel við sig í Frakklandi. EPA/ABEDIN TAHERKENAREH

Á morgun, þriðjudag, mæta strákarnir okkar ógnarsterku liði Frakklands í undankeppni HM karla í knattspyrnu sem fram fer í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári. Leikurinn fer fram í París.

Eftir frábæran sigur gegn Aserbaísjan í 1. umferð undankeppninnar er ákveðin bjartsýni fyrir leikinn í höfuðborg Frakklands annað kvöld. Það er þó erfitt að horfa framhjá þeirri staðreynd að hvorki Albert Guðmundsson né Orri Steinn Óskarsson séu með. Eða þá að síðustu tveir mótsleikir liðanna í París hafa endað með 4-0 og 5-2 sigri Frakklands.

Ef við horfum í vináttulandsleiki hefur Ísland hins vegar hent frá sér tveggja marka forystu í tvígang frá árinu 2012.

Ísland heimsótti París í undankeppni EM 2020. Þar var um leik kattarins að músinni að ræða en heimamenn, þáverandi heimsmeistarar, unnu gríðarlega öruggan 4-0 sigur. Mörkin skoruðu þeir Antoine Griezmann, Kylian Mbappé, Oliver Giroud og Samuel Umtiti. Reikna má með að Mbappé komi við sögu á morgun en hann skoraði annað mark Frakklands í 2-0 sigrinum á Úkraínu í 1. umferð undankeppninnar.

Mótsleikurinn á undan þeim leik var hið fræga 5-2 tap í 8-liða úrslitum á EM 2016 sem fram fór í Frakklandi. Þar komst Frakkland í 4-0 snemma leiks áður en Ísland klóraði í bakkann. Ef við horfum hins vegar í leik sem fór fram haustið 2018 þá gerðu þjóðirnar 2-2 jafntefli.

Birkir Bjarnason og Kári Árnason komu Íslandi óvænt 2-0 yfir í þeim leik. Hólmar Örn Eyjólfsson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og að sjálfsögðu jafnaði Mbappé á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Það sem gerði jafnteflið hér að ofan enn súrara var að vorið 2012 hafði Ísland einnig komist 2-0 yfir. Birkir og Kolbeinn Sigþórsson með mörkin að þessu sinni. Tvíeykið var einnig á skotskónum í 5-2 tapinu á EM fjórum árum síðar.

Hvað leikinn 2012 varðar þá minnkaði Mathieu Debuchy muninn áður en Franck Ribéry jafnaði metin á 85. mínútu. Tveimur mínútum síðar skoraði Adil Rami sigurmark Frakklands, lokatölur 3-2 heimamönnum í vil. Það er því ljóst að ekki má fagna um og of komist Ísland yfir snemma leiks í París annað kvöld.

Leikur Frakklands og Íslands hefst klukkan 18:45 annað kvöld og verður sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×