Skoðun

Sam­starf um lofts­lags­mál og grænar lausnir

Sigurður Hannesson og Nótt Thorberg skrifa

Á sama tíma og heimurinn glímir við óstöðugleika í alþjóðamálum, orkumörkuðum og viðskiptum, vex þörfin fyrir raunverulegar loftslagsaðgerðir. Við höfum mikil tækifæri til að ná árangri. Reynslan sýnir að þegar við hér á landi höfum haft hugrekki til að horfa lengra og ráðast í djörf skref, hefur það skapað okkur forskot sem enginn efast um í dag.

Við erum með forskot í nýtingu auðlinda. Við höfum reynslu af orkuskiptum. Við erum á þröskuldi grænnar iðnbyltingar sem mun skapa ný verðmæt störf. Við höfum byggt upp hugvit og verkvit, til dæmis með sjálfbærri nýtingu jarðvarma, sem hefur nýst um allan heim.

Það býr kraftur í íslensku atvinnulífi – fyrirtækjum sem skapa verðmæti, störf og lausnir. Þar eru fjölmörg fyrirtæki sem þegar eru að leiða vagninn í orkuskiptum og grænum lausnum. Þekking og reynsla Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku er útflutningsvara í sjálfu sér og er í reynd okkar stærsta framlag til loftslagsmála á heimsvísu.

Samstarf er lykilatriði í þessari vegferð. Grænvangur hefur sýnt að samtal stjórnvalda og atvinnulífs getur skapað jarðveg fyrir árangur. Það er ekki sjálfgefið að slíkur vettvangur sé til, en hann gerir okkur kleift að brjóta niður múra og byggja brýr milli ólíkra aðila.

Framtíðin er björt – ef við höfum hugrekki til að nýta tækifærin. Ísland hefur sögulega sýnt að við getum tekið stór skref. Nú þurfum við að endurtaka leikinn, leggja rækt við samstarf, byggja á styrkleikum okkar og umbreyta háleitum markmiðum í áþreifanlegar aðgerðir. Ef okkur tekst það, verður Ísland ekki aðeins öflugra – heldur fyrirmynd fyrir heiminn.

Ársfundur Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, verður haldinn í Grósku í dag kl. 14 og stendur öllum opinn.

Á fundinum, sem ber yfirskriftina Samstarf til framtíðar – öflugt Ísland, ætlum við að ræða framtíðina í þessum málaflokki; hvernig kraftmikið samstarf stjórnvalda og atvinnulífs getur lagt grunn að samkeppnishæfni til framtíðar, öruggu orkukerfi og markvissum loftslagslausnum.

Sigurður er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og formaður stjórnar Grænvangs og Nótt er forstöðumaður Grænvangs.




Skoðun

Sjá meira


×