Viðskipti innlent

Samið um norð­lenska for­gangs­orku

Atli Ísleifsson skrifar
Frá undirritun samnings Landsvirkjunar og atNorth í dag.
Frá undirritun samnings Landsvirkjunar og atNorth í dag. Landsvirkjun

Landsvirkjun og gagnaver atNorth á Akureyri hafa samið um kaup gagnaversins á allt að 12 MW forgangsorku frá og með síðari hluta næsta árs. Samningurinn er til fimm ára og þar sem atNorth kaupir einnig upprunaábyrgðir flokkast samningurinn sem grænn raforkusamningur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun. Þar segir að vegna takmarkana í flutningskerfi raforku sé orkuframboð á Norðurlandi meira en sunnanlands og því hægt að gera langtímasamninga um forgangsorku við fyrirtæki í þeim landshluta.

„atNorth hefur verið viðskiptavinur Landsvirkjunar um árabil, en hér á landi rekur fyrirtækið einnig gagnaver í Hafnarfirði og Reykjanesbæ sem og í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Fyrir tveimur árum gerðu atNorth og Landsvirkjun allt að 5 MW forgangsorkusamning samhliða því að atNorth hóf rekstur á Akureyri. Nýr samningur felur í sér viðbótarmagn og lengir samningstímann, en gagnaverið mun alls hafa 12 MW til umráða frá Landsvirkjun fyrir starfsemi sína á Akureyri.

Gervigreind og gagnageymsla

Gagnaverin hafa umbreytt starfsemi sinni undanfarið. Megináherslan er nú á gervigreind og þjónustu við viðskiptavini sem þurfa gagnageymslu og mikla reiknigetu. Þessi umbreyting gagnaveranna er í takt við stefnu Landsvirkjunar um að styðja við stafræna vegferð samfélagsins.

Tækniframfarir og vaxandi þörf fyrir stafræna innviði gera gagnaversstarfsemi að spennandi atvinnugrein sem vænst er að muni vaxa margfalt á við aðra geira á næstu árum. Íslensk gagnaver hafa samið við stór alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir, t.d. á sviði loftslagsrannsókna, fjármálaútreikninga, bílahönnunar og erfða- og líftækni.

Gagnaverin hýsa nær alla stafræna innviði Íslands. Allar vefsíður og smáforrit eru hýst í gagnaverum og flestir Íslendingar nota því gagnaver á hverjum degi,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×