Innlent

Á­kærður fyrir að nauðga barni frá því að það var tveggja ára

Jón Þór Stefánsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur mun taka málið fyrir.
Héraðsdómur Reykjavíkur mun taka málið fyrir. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir nauðgun, kynferðisbrot gegn barni og stórfellt brot í nánu sambandi vegna meintra brota gegn barni, sem mun hafa tengst honum nánum böndum, meðan það var tveggja til fimm ára gamalt. Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir að hafa í vörslum sínum mikið barnaníðsefni í tækjum sínum.

Í ákæru sem fréttastofa hefur undir höndum segir að meint brot mannsins hafi verið framin frá árinu 2020 til 2023. Maðurinn hafi misnotað yfirburðastöðu sína gagnvart barninu, traust hennar og trúnað. Ekki kemur fram hvernig maðurinn og barnið tengjast.

Hann er sagður hafa ítrekað og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð barnsins. Hann er ákærður fyrir að „snerta kynfæri hennar með fingrum sínum og hafa við hana önnur kynferðismök en samræði með því að setja fingur í leggöng hennar“.

Þegar meint brot eiga að hafa verið framin var barnið tveggja til fimm ára gamalt.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir vörslu á miklu magni efnis sem sýnir börn á kynferðislegan hátt. Samkvæmt ákæru lagði lögregla hald á fartölvu við húsleit á heimili mannsins sem innihélt 330 ljósmyndir og 52 kvikmyndir af þessu tagi, USB-minnislykil sem innihélt eina ljósmynd og 131 kvikmyndir sem sýna kynferðislega misnotkun á börnum og annað af því tagi.

Þá munu tvær fartölvur til viðbótar hafa fundist sem hvor um sig innihélt þrjár ljósmyndir sem sýna börn á kynferðislegan hátt.

Þess er krafist fyrir hönd móður barnsins að maðurinn greiði fjórar milljónir króna í miskabætur.

Það er Héraðssaksóknari sem höfðar málið og verður það tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×