Erlent

Með rétt til að „gera hvað sem ég vil“

Samúel Karl Ólason skrifar
Ráðherrar Trumps böðuðu hann í lofi í gær.
Ráðherrar Trumps böðuðu hann í lofi í gær. AP/Mark Schiefelbein

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt í gær fordæmalausan rúmlega þriggja tíma ríkisstjórnarfund sem sýnt var frá í beinni útsendingu. Þar sagðist hann meðal annars hafa rétt, sem forseti, til að gera hvað sem hann vildi en ítrekaði að hann væri ekki einræðisherra.

Þá var Trump að tala um að senda hermenn til borga eins og Chicago, sem hann hefur ítrekað hótað að gera að undanförnu.

Sjá einnig: Hótar að senda herinn til Baltimore

Trump sjálfur stærði sig af því að svo langur fundur hefði aldrei verið haldinn fyrir opnum tjöldum áður og hrósaði blaðamönnum það hve lengi þeir gætu haldið á myndavélum og hljóðnemum.

Ráðherrar Trumps og handvalið fjölmiðlafólk skiptust þar að auki á því að ausa yfir hann lofi og fór mestur fundurinn í það.

Einn af einum skipaði Trump ráðherrum sínum að taka til máls og eyddu þeir mestum tíma sínum í að lofa forsetann í hástert og ítreka fyrir honum að þeir væru að framfylgja vilja hans.

Trump gerði ráðherrum sínum einnig ljóst að ef hann væri ósáttur með þá, myndi hann segja það opinberlega.

Lori Chavez-DeRemer, atvinnumálaráðherra, bauð Trump í heimsókn í ráðuneyti hennar, svo hún gæti séð hans „stóra, fallega andlit“ á stærðarinnar borða í ráðuneytinu. Því hann hefði haft svo gífurleg og jákvæð áhrif á líf almennra verkamanna í Bandaríkjunum.

Steve Witkoff, auðjöfur og sérstakur erindreki Trumps, jós forsetann lofi og ítrekaði að hann ætti með réttu að fá friðarverðlaun Nóbels. Vísaði hann sérstaklega til forystu Trumps hvað varðar átakanna á Gasaströndinni, þar sem Ísraelar gera ítrekað mannskæðar árásir á óbreytta borgara.

Witkoff hélt því fram að í sögu friðarverðlaunanna væri enginn sem hefði átt þau meira skilið en Trump og hlaut hann lófaklapp annarra Trump-liða í herberginu fyrir.

Trump hefur stært sig af því að binda enda á fjölmörg stríð síðan hann tók við embætti. Fyrst voru þau sex en degi síðar sjö. Nú eru þau orðin tíu talsins, stríðin sem Trump segist hafa stöðvað eða komið í veg fyrir.

Sjá einnig: „Stríðin“ sex, stundum sjö, sem Trump segist hafa stöðvað

Witkoff sagði einnig að enginn annar en Trump ætti séns á að binda enda á innrás Rússa í Úkraínu.

Þá benti Trump á að Witkoff hefði sagt þetta nokkrum sinnum áður og velti vöngum yfir því hvort hann væri að byggja upp sjálfsálit hans með þessum ummælum. Það væri þó ólíklegt.

„Ég hef ekkert sjálfsálit þegar kemur að þessum málum,“ sagði Trump.

Inn á milli kvartaði forsetinn yfir ýmsum hlutum og málefnum sem fara í taugarnar á honum. Meðal annars kvartaði hann, samkvæmt New York Times, yfir „trans fyrir alla“ í bandarískum íþróttum, ógninni af vindmillum, viðhaldi á umferðareyjum, hraða vatnsflæðis og þá lagði hann til að ef einhver fremdi morð í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna, stæði viðkomandi sjálfkrafa frammi fyrir dauðadómi.

Hæstiréttur úrskurðaði fyrir nærri því hálfri öld að slíkt færi gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Áhugasemir geta horft á allan fundinn í spilaranum hér að neðan.

Ekki einræðisherra, en getur gert það sem honum sýnist

Á fundinum í gær talað Trump ítrekað um það að senda hermenn til Chicago. Þar ættu þeir að berjast gegn glæpastarfsemi en Trump hefur ítrekað haldið því fram að borgin sé að drukkna í glæpum og morð séu einstaklega tíð þar, eins og hann hefur gert um fjölmargar borgir í Bandaríkjunum.

Hann hefur þó lengi verið sérstaklega gagnrýninn á Chicago.

Forsetinn gagnrýndi JB Pritzker, ríkisstjóra Illinois, fyrir að mótmæla yfirlýsingum Trumps um að senda hermenn til borgarinnar og sagði að ríkisstjórinn ætti frekar að biðja um aðstoð og þakka sér fyrir.

Trump vísaði til þess að Pritzker hefði gefið í skyn að hann væri að haga sér eins og einræðisherra.

„Flestir eru að segja: „Ef þú kallar hann einræðisherra, ef hann stoppar glæpi, getur hann verið hvað sem hann vill“. Ég er ekki einræðisherra, svo það sé á hreinu,“ sagði Trump.

Seinna á fundinum sagði Trumps svo að hann hefði í raun rétt til að gera hvað sem er. Ef hann teldi Bandaríkjunum ógnað, gæti hann sem forseti gert það sem honum sýndist.

„Ég get gert það.“

Hann sagði að það yrði ekkert vandamál að laga vandamál Pritzker en það væri indælt ef ríkisstjórinn bæði Trump persónulega um aðstoð.

Priztker svaraði Trump á X og sagði: „Nei Donald. Þú getur ekki gert það sem þér sýnist.“

Kjósendur jákvæðir

könnun á vegum AP fréttaveitunnar bendir til þess að meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum telji glæpi í stórum borgum mikið vandamál. Heilt yfir eru kjósendur ekki sáttir við meðhöndlun Trumps á ýmsum málefnum en þeir virðast jákvæðari í garð harðar afstöðu hans gagnvart glæpum.

Kjósendur virðast þó ekki sáttir við að alríkið taki yfir löggæslu í borgum og þykir það benda til þess að viðhorfið gæti breyst á komandi vikum, eftir því hvað Trump gerir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×