Erlent

Thun­berg og fé­lagar borin út úr norska seðla­bankanum

Kjartan Kjartansson skrifar
Greta Thunberg og félagar mótmæla í höfuðstöðvum norska bankans DNB.
Greta Thunberg og félagar mótmæla í höfuðstöðvum norska bankans DNB. Vísir/EPA

Lögreglumenn báru hóp loftslagsmótmælenda, þar á meðal Gretu Thunberg, út úr norska seðlabankanum í morgun. Hópurinn hefur mótmælt á ýmsum stöðum í vikunni, þar á meðal við stærstu olíuhreinsistöð Noregs.

Norska ríkisútvarpið hefur eftir lögreglu að tæplega fimmtíu loftslagsaðgerðasinnar hafi lokað alla innganga að seðlabankanum í Osló í morgun. Af þeim hafi 29 verið bornir úr og kærðir fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu.

Mótmælendurnir lokuðu Karls Jóhannsgötu í höfuðborginni og fóru inn í útibú DNB-bankans, stærsta banka Noregs. Sextán manns voru kærðir vegna þeirra mótmæla.

Hópurinn er á vegum róttæku aðgerðasamtakanna Útrýmingaruppreisnarinnar (e. Extinction Rebellion). Fyrr í vikunni mótmælti hópurinn við olíuhreinsistöðina í Mongstad. Krafa samtakanna er að norsk stjórnvöld leggi fram áætlun um hvernig jarðefnaeldsneyti verði tekið úr umferð.

Sylvi Listhaug, leiðtogi Framfaraflokksins, sagði við það tækifæri að vísa ætti Thunberg úr landi. Lýsti hún sænska aðgerðasinnanum einnig sem glæpakvendi.

Útrýmingaruppreisnin hefur undanfarin ár staðið fyrir mótmælaaðgerðum sem hafa meðal annars lamað umferð í stórborgum eins og London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×