Fótbolti

Féll fimm metra við að fagna marki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar Mierza Firjatullah hoppuðu sem betur fer ekki á eftir honum.
Liðsfélagar Mierza Firjatullah hoppuðu sem betur fer ekki á eftir honum. @mierza.lovers

Ungur knattspyrnumaður skoraði mjög gott mark fyrir þjóð sína en fagnaðarlætin hans enduðu afar illa.

Mierza Firjatullah skoraði gott skallamark fyrir sautján ára landslið Indónesíu leik á móti Tadsíkistan. Var réttur maður á réttum stað í teignum og skallaði boltann laglega í markið.

Leikurinn var í Independence bikarnum og strákurinn kom Indónesíu í 1-0 á 34. mínútu.

Markið gott og gilt en var þó alls ekki ástæðan fyrir því af hverju strákurinn komst í heimsfréttirnar.

Fögnuður Firjatullah kom honum nefnilega í vandræði og á flug á netmiðlum.

Firjatullah var mjög kátur með markið sitt, hljóp í átta að áhorfendastúkunni og ætlaði að fagna með stuðningsmönnum indóníska liðsins sem höfðu fjölmennt á Norður Súmötru leikvanginn í Deliserdang í Indónesíu.

Hann vildi komast alveg upp að kátum stuðningsmönnunum og hoppaði því yfir girðinguna sem var umhverfis völlinn.

Firjatullah hélt auðvitað að jörðin væri í sömu hæð hinum megin við girðinguna en svo var ekki raunin.

Firjatullah hoppaði í staðinn beina leið ofan í gryfju milli leikvallarins og áhorfendastúkunnar. Fyrir vikið féll strákurinn um fimm metra.

Liðsfélagarnir komu á eftir honum en höfðu vit á því að stoppa við girðinguna.

Það ótrúlega við þetta að Firjatullah tókst að lenda stökkið og sleppa tiltölulega ómeiddur úr þessu ævintýri. Hann hélt síðan áfram að fagna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×