Íslenski boltinn

Sjóð­heitur Sigurður Bjartur með sjö mörk í síðustu fimm leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aðeins tveir leikmenn hafa skorað fleiri mörk en Sigurður Bjartur Hallsson í Bestu deild karla í sumar.
Aðeins tveir leikmenn hafa skorað fleiri mörk en Sigurður Bjartur Hallsson í Bestu deild karla í sumar. vísir/anton

Eftir að hafa daðrað við fallbaráttu er FH komið í baráttu um að vera í efri helmingi Bestu deildar karla eftir gott gengi í síðustu leikjum. Það er ekki síst framherjanum Sigurði Bjarti Hallssyni að þakka en hann hefur verið óstöðvandi að undanförnu.

FH gerði góða ferð í Kópavoginn í gær og vann 4-5 sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks í miklum markaleik. Þetta var fyrsti sigur FH-inga á gervigrasi í sumar og þeir eru nú komnir upp í 6. sæti deildarinnar með 26 stig.

Sigurður Bjartur skoraði eitt marka FH á Kópavogsvelli í gær. Hann hefur nú skorað í fimm leikjum í röð, alls sjö mörk.

Sigurður Bjartur er kominn með níu mörk í sumar og er þriðji markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar. Aðeins Valsmaðurinn Patrick Pedersen (18) og KR-ingurinn Eiður Gauti Sæbjörnsson (10) hafa skorað meira.

FH hefur náð í tíu stig í síðustu fimm leikjum. Eina tapið kom gegn toppliði Vals í leik þar sem FH þótti spila vel.

Sigurður Bjartur skoraði átta mörk í Bestu deildinni í fyrra og er nú búinn að toppa þann árangur. Sigurður Bjartur var næstmarkahæstur í næstefstu deild 2021 þegar hann skoraði sautján mörk fyrir Grindavík. Eftir það fór hann til KR þar sem hann lék í tvö ár. Sigurður Bjartur gekk svo í raðir FH í fyrra og hefur skorað sautján mörk í 46 deildarleikjum fyrir liðið.

Næsti leikur FH er gegn ÍBV í Kaplakrika á sunnudaginn kemur.


Tengdar fréttir

Fyrsti sigurinn á gervigrasi í 357 daga

FH vann í gær 5-4 sigur á Breiðabliki í hreint ótrúlegum fótboltaleik. Um er að ræða fyrsta sigur FH á gervigrasi í tæpt ár.

„Maður þurfti kvíðalyf síðustu mínúturnar“

„Við erum sjálfum okkur verstir á köflum, maður þurfti kvíðalyf síðustu mínúturnar. Algjör óþarfi að hleypa leiknum upp í þetta, en fyrirfram hefði ég alveg tekið því að skora fimm á móti Íslandsmeisturunum“ sagði Böðvar Böðvarsson, fyrirliði FH, eftir ótrúlegan 4-5 sigur á Kópavogsvelli. Hann segir FH vera að nálgast stöðugleikann sem liðið hefur skort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×