Fótbolti

Spáir Bröndby sigri í ein­víginu á móti Víkingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Hansen horfir á eftir skalla sínum enda í marki Bröndby í fyrri leiknum.
Nikolaj Hansen horfir á eftir skalla sínum enda í marki Bröndby í fyrri leiknum. Vísir/Diego

Víkingur mætir til Kaupmannahafnar 3-0 yfir eftir frábærum sigur á Bröndby í Víkinni í síðustu viku. Danskur fótboltasérfræðingur spáir því samt að danska fótboltaliðið komist áfram í næstu umferð Sambandsdeildarinnar.

Vikingar eru með þriggja marka forskot fyrir seinni leikinn og unnu Danina svo sannfærandi að stuðningsmenn Bröndby fóru algjörlega yfir um eftir leikinn og réðust bæði á menn og dauða hluti eftir leikinn.

Bröndby fékk líka algjöra útreið í dönskum fjölmiðlum og orð eins og hneyksli, úrræðaleysi, og vandræðalegt var slegið upp.

Það eru samt ekki allir búnir að afskrifa Bröndby liðið þrátt fyrir slæma stöðu.

Einn knattspyrnusérfræðinga Dana hefur enn trú á danska liðinu á móti Íslendingunum.

„Ég held að Bröndby, þrátt fyrir slæma stöðu í byrjun leiks, munu samt slá út Víkingana,“ sagði Peter Sørensen, sérfræðingur hjá Viaplay.

Bröndby hafði fyrir fyrri leikinn aldrei tapað leik á móti íslensku liði í Evrópukeppni og unnið alla þrjá heimaleiki sína með samanlagt markatölunni 12-2.

Síðasti leikur íslensks liðs á útivelli á móti Bröndby í júlí 2016 þegar danska liðið vann 6-0 stórsigur á Val. Það er því kannski ekkert alveg út í hött að danski sérfræðingurinn búist við því að Bröndby snúi við blaðinu í seinni leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×