Upp­gjörið: Fram - Breiða­blik 1-6 | Ekkert fær Blika stöðvað

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Aglamaría Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks.
Aglamaría Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks. vísir/viktor

Breiðablik styrkti stöðu sína á toppi Bestu deildar kvenna með 6-1 útisigri á Fram á Lambhagavellinum í kvöld og sigurinn var í raun aldrei í hættu. Samantha, Kristín Dís, Birta (2), Edith og Líf með mörk Breiðabliks en mark Fram skoraði Lily. Blikar voru að vinna sinn áttunda leik í röð í öllum keppnum.

Blikar sitja á toppi deildarinnar með 34 stig en Fram í sjöunda sæti með 15 stig áfram.

Aftur skorar Breiðablik snemma

Lið Fram hafði tapað síðustu tveimur leikjum áður en það kom að leik kvöldsins á meðan Breiðablik hafði unnið sjö í röð eins og áður segir. Fram spilaði síðast fyrir tæpum tveimur vikum á meðan Blikar spiluðu síðast á mánudag. Það var því ljóst fyrir fram að liðin voru að koma til leiks frá mismunandi stöðum, ef svo má segja. 

Breiðablik fékk fremur umdeilda vítaspyrnu á 9. mínútu leiksins sem Samantha skoraði örugglega úr, vinstri fótur vinstra horn. Fram átti sína spretti í fyrri hálfleik en Ólína fékk dauðafæri er hún fékk opið skotfæri í teignum sem Katherine, markvörður Blika, gerði vel í að verja. 

Það var svo Kristín Dís sem skoraði annað mark Blika með bylmingsskoti fyrir utan teig en í aðdragandanum átti Barbara fyrirgjöf sem vörn Fram hreinsaði beint á ristina hjá Kristínu og boltinn söng í netinu.

Stuttu eftir mark númer tvö átti áðurnefnd Barbára Sól skot fyrir utan teig sem small í slánni og niður en inn fór boltinn ekki. Staðan 2-0 í hálfleik, Breiðablik í vil.

Flóðgáttir opnast í seinni hálfleik

Fram hóf síðari hálfleikinn af krafti og uppskáru mark á 48. mínútu eftir að aukaspyrna á miðjum velli var tekin snöggt en Katrín Erla var snögg að hugsa og fann Lily í fætur sem keyrði í átt að vítateignum og skoraði með góðu skoti fyrir utan teig. 

Staðan var 2-1 en þá tóku Blikakonur heldur betur við sér og á einhverjum sjö mínútna kafla skoruðu þær þrjú mörk og gengu frá leiknum. Birta Georgsdóttir skorar tvö mörk með stuttu millibili þar sem Dominiqe varnarmaður Fram leit vægast sagt illa út.

Liðin skiptust á að hafa boltann síðustu tíu mínúturnar eða svo en Breiðablik var alltaf með undirtökin og sterkara liðið á vellinum í dag og það var Líf sem skoraði sjötta mark Blika á lokamínútunum. 

Niðurstaðan sú að Breiðablik tekur með sér þrjú stig heim í Kópavoginn og styrkir stöðu sína á toppi deildarinnar. Áttundi sigurleikurinn í röð í öllum keppnum.

Atvik leiksins. Markið hjá Kristínu Dís var einkar flott og er atvik leiksins að mínu mati. Vítaspyrnudómurinn í byrjun var vissulega soft en það hafði í sjálfu sér ekki of mikil áhrif á endanleg úrslit leiksins, enda Breiðablik einfaldlega mun sterkara lið og með breiðari hóp sem kannski skóp þennan stóra sigur.

Stjörnur og skúrkar. Í liði Breiðabliks var Kristin Dís öflug á miðjunni og skoraði glæsilegt mark og Birta Georgsdóttir skorar sömuleiðis að vild þessi misserin. Hjá Fram skoraði Lily stórgott mark og var spræk. Skúrkurinn hins vegar hlýtur að vera Dominiqe sem átti hauskúpumínútur í seinni hálfleik þegar Blikar gengu á lagið og skoruðu þrjú mörk með stuttu millibili.

Dómarinn. Allt í lagi frammistaða í kvöld hjá Ásmundi Þór Sveinssyni og hans teymi. Vítaspyrnudómurinn í fyrri hálfleik, séð frá fjölmiðlastúkunni, var frekar harður. Fólk man yfirleitt eftir stóru atvikunum – en að öðru leyti lítið út á dómarateymið að setja. Þeir voru faglegir og fínt flæði. Einkunn 7,0.

Stemning og umgjörð. Samtals voru 248 manns í stúkunni á þessum leik og áhorfendur fengu góðan leik þetta fimmtudagskvöld. Veðrið var með miklum ágætum og umgjörðin á Lambahagavellinum í Úlfarsárdal var flott.

Ánægður með sóknarmenn sína

Þjálfari Breiðabliks fylgist með.Vísir/Diego

Nik þjálfari Breiðabliks var ánægður með sitt lið eftir leik: 

„Mér fannst við vera mjög góðar 90% af leiknum og þegar leið á leikinn og við fórum að færa boltann hraðar á milli þá var þetta mjög gott, ég er mjög ánægður með frammistöðu allra í dag.“

Breiðablik er ekki á flæðiskeri statt þegar það kemur að markaskorurum, bæði Berglind og Birta eru komnar með tíu mörk í deildinni. Aðspurður segist Nik vera ánægður með sína sóknarleikmenn: 

„Berglind hefur sýnt það að hún er reyndur markaskorari og Birta hefur unnið virkilega vel í allan vetur og þetta er í fyrsta sinn sem hún skorar tíu mörk síðan árið 2019 þegar hún lék með FH. Ég er virkilega glaður fyrir hennar hönd þar sem hún hefur verið að æfa það að klára færin sérstaklega og hún er að uppskera eftir því. Við erum að fá framlög alls staðar að, t.a.m. skoraði Kristin Dís frábært mark og Edith sömuleiðis.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira