Innlent

Ætlar að kæra skvettarann sem segir á­rásina „bara brandara“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Eyþór á tali við Guðmund Bergqvist, tökumann hjá RÚV, og Sigtrygg Ara Jóhannsson, ljósmyndara og mótmælanda.
Eyþór á tali við Guðmund Bergqvist, tökumann hjá RÚV, og Sigtrygg Ara Jóhannsson, ljósmyndara og mótmælanda. Bjarni Þór Sigurðsson

Eyþór Árnason ljósmyndari hyggst kæra mann sem skvetti rauðri málningu yfir hann þar sem hann var á vettvangi á mótmælafundi á vegum Félagsins Íslands-Palestínu.

Á fundinum sem fór fram í gær fyrir utan húsakynni utanríkisráðuneytisins að Reykjastræti var liður í mótmælaaðgerðunum að skvetta rauðri málningu á veggi og glugga ráðuneytisins. Mótmælandi sem var ósáttur með umfjöllun Morgunblaðsins um ódæði Ísraela á Gasaströndinni spurðist fyrir um vinnuveitanda Eyþórs og réðst að honum með málningarfötu í kjölfarið.

Þessa mynd fangaði ljósmyndari Ríkisútvarpsins af Eyþóri.Guðmundur Bergkvist

„Ég reikna með því að kæra þetta mál. Prinsipplega getum við ekki látið þetta yfir okkur ganga sem stétt,“ segir Eyþór í samtali við fréttastofu.

Gleraugun björguðu honum

Hann segist hafa bókað kærumóttöku og að hann muni stefna árásarmanninum fyrir líkamsárás og eignatjón en fatnaður hans er ónýtur og hluti búnaðarins hans líka.

Til allrar lukku slapp myndavélin alfarið við málningarslettur en annars hefði árásarmaðurinn mátt búast við ansi hárri bótagreiðslu.

Eyþór tekur líka fram að gleraugu sem hann hafði á andliti sér þegar málningunni var skvett hafi mögulega bjargað honum frá meiriháttar líkamstjóni en málning fór í munn hans og nef.

Hann telur að hann sé tryggður í gegnum vinnuveitanda sinn en á eftir að skoða málið betur.

Gerir grín að árásinni

Árásarmaðurinn tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum í gær. Af skilaboðunum þar að dæma iðrast hann árásarinnar ekkert og lýsir henni sem „bara brandara.“

„Hann er bara að gera grín að þessu. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu hjá honum,“ segir Eyþór inntur eftir viðbrögðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×