Fótbolti

Skoraði sigur­mark gegn Manchester United og er nú kominn til Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roony Bardghji fagnar hér sigurmarki sínu á móti Manchester United ásamt íslenska landsliðsframherjanum Orra Steini Óskarssyni sem FCK seldi til Real Sociedad.
Roony Bardghji fagnar hér sigurmarki sínu á móti Manchester United ásamt íslenska landsliðsframherjanum Orra Steini Óskarssyni sem FCK seldi til Real Sociedad. Getty/ Lars Ronbog

Barcelona hefur samið við hinn nítján ára gamla Roony Bardghji sem kemur til félagsins frá FC Kaupmannahöfn í Danmörku.

Bardghji hefur lengi verið í hópi allra efnilegustu leikmanna dönsku deildarinnar en hann kom til FCK frá Malmö árið 2020.

Hann er sænskur unglingalandsliðsmaður sem hefur þó ekki enn fengið tækifæri með A-landsliðinu.

Stærsta stund Roony Bardghji til þessa á ferlinum var þegar hann skoraði sigurmarkið í 4-3 sigri á Manchester United í Meistaradeildinni árið 2023.

Bardghji er nýkominn til baka eftir hnémeiðsli sem hann varð fyrir í apríl í fyrra. Hann sneri aftur eftir þessi krossbandsslit í lok mars.

Athygli vekur að Roony Bardghji spilar sömu stöðu og ungstirnið Lamine Yamal eða úti á hægri kanti.

Bardghji lék alls 84 leiki fyrir FCK í öllum keppnum og skoraði í þeim fimmtán mörk.

Samningur Bardghji við Barcelona er til 30. júní 2029.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×