Innlent

Björguðu göngukonu í sjálf­heldu við Hrafn­tinnu­sker

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skálinn í Hrafntinnuskeri.
Skálinn í Hrafntinnuskeri. Mynd/Ferðafélag Íslands

Björgunarsveitir voru boðaðar út klukkan ellefu í gærkvöldi vegna göngukonu í sjálfheldu skammt frá Hrafntinnuskeri.

Björgunarfélag Árborgar, sem var staðsett í Landmannalaugum á hálendisvakt, og Flugbjörgunarsveitin Hellu voru kallaðar út. Björgunarsveitir notuðust við svokallaða buggy-bíla til að komast áleiðis en landslagið var krefjandi og þurftu björgunarsveitarfólk að ganga nokkra kílómetra að konunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Um klukkan tvö í nótt komust björgunarsveitarmenn loks að konunni þar sem hún hélt sér kyrru fyrir en var orðið frekar kalt. 

Björgunarsveitirnar notuðu fjallabjörgunarbúnað til að koma konunni til aðstoðar. Í kjölfarið fékk hún fékk aðhlynningu og fóru björgunarsveitir með hana í nærliggjandi skála. Björgunaraðilar héldu heim á leið og voru komnir til baka á sjöunda tímanum í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×