Fótbolti

Partey á­kærður fyrir nauðgun

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thomas Partey í leik með Arsenal.
Thomas Partey í leik með Arsenal. Stephanie Meek - CameraSport via Getty Images

Thomas Partey, fyrrverandi leikmaður Arsenal á Englandi, hefur verið ákærður af lögregluyfirvöldum í Bretlandi fyrir nauðgun. Ákæruliðirnir eru sex og beinast gegn þremur konum.

Ásakanirnar hafa hangið yfir Partey um hríð og hafa breskir fjölmiðlar fjallað um leikmann í ensku úrvalsdeildinni síðustu mánuði sem hefur verið til rannsóknar vegna meintra kynferðisbrota. Lög í Bretlandi hafa hins vegar ekki heimilað að Partey sé nafngreindur í fjölmiðlum þar til ákæra er gefin út.

Greint er frá ákærunni á vef bresku lögreglunnar í dag. Partey er ákærður vegna brota gegn þremur konum vegna sex meintra brota. Tveir ákæruliðir eru vegna meintrar nauðgunar á konu, þrír ákæruliðir vegna meintrar nauðgunar á annarri konu og sjötti ákæruliður vegna meints kynferðisbrots gegn þriðju konunni.

Meint brot áttu sér stað á árunum 2021 og 2022. Rannsókn hefur staðið yfir síðan í febrúar 2022 þegar fyrsta málið var kynnt til lögreglu.

Málið verður tekið fyrir í réttarsal þann 5. ágúst næstkomandi.

Partey var leikmaður Arsenal frá árinu 2020 en hann yfirgaf félagið þegar samningur hans við Skytturnar rann út 30. júní síðastliðinn. Hann er ganískur landsliðsmaður og hefur skorað 15 mörk í 53 landsleikjum fyrir Gana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×