Fótbolti

Fyrsta byrjunar­lið Ís­lands á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er á sínum stað sem fyrirliði íslenska landsliðsins og nú í fyrsta sinn fyrirliði á stórmóti.
Glódís Perla Viggósdóttir er á sínum stað sem fyrirliði íslenska landsliðsins og nú í fyrsta sinn fyrirliði á stórmóti. Getty/Pat Elmont

Nú er ljóst hvaða ellefu leikmenn fá það verkefni að hefja fyrsta leik Íslands á EM kvenna í fótbolta, á Stockhorn Arena í Thun þar sem flautað verður til leiks gegn Finnum klukkan 16.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari heldur sig við nákvæmlega sama byrjunarlið og í sigrinum gegn Serbíu í síðasta leiknum fyrir EM. Beina textalýsingu frá leiknum í dag er hér á Vísi:

Þetta eru leikmennirnir sem byrja þennan gríðarlega mikilvæga leik við Finnland:

Mark: Cecilía Rán Rúnarsdóttir.

Vörn: Guðný Árnadóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Guðrún Arnardóttir.

Miðja: Alexandra Jóhannsdóttir, Hildur Antonsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

Sókn: Hlín Eiríksdóttir, Sandra María Jessen, Sveindís Jane Jónsdóttir.

Glódís Perla Viggósdóttir leiðir að sjálfsögðu liðið út á völlinn, í fyrsta sinn sem fyrirliði á stórmóti. Cecilía Rán Rúnarsdóttir er í markinu og leikur sinn fyrsta leik á stórmóti, eftir að hafa farið meidd af EM í Englandi fyrir þremur árum.

Hildur Antonsdóttir og Hlín Eiríksdóttir leika einnig á stórmóti í fyrsta sinn.

Síðar í kvöld mæta heimakonur í Sviss liði Noregs, í seinni leik dagsins í A-riðli. Næsti leikur Íslands er gegn Svisslendingum á sunnudaginn og stelpurnar okkar mæta svo Noregi 10. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×