Sport

Ís­lenska lands­liðið í krikket á leiðinni til Var­sjár

Stefán Árni Pálsson skrifar
Landsliðið heldur út síðar í mánuðnum á Euro Cup.
Landsliðið heldur út síðar í mánuðnum á Euro Cup.

Íslenska landsliðið í krikket tekur þátt á Euro Cup 2025 sem verður haldið í Varsjá í Póllandi og fer fyrsti leikurinn fram þann 10. júlí og lýkur keppni 13. Júlí.

Á mótinu mun Ísland keppa gegn Póllandi, Úkraínu, Lettlandi og Litháen en eflaust vita ekki margir að við Íslendingar eigum landslið í krikket en sú er raunin.

Allir leikmenn íslenska liðsins eru innflytjendur. Þeir koma frá löndum eins og Pakistan, Indlandi, Sri Lanka, Bretlandi, Ástralíu og Suður-Afríku. Aðalstyrktaraðili landsliðsins er fyrirtækið Bara tala en leikmenn liðsins hafa lært íslensku með þeirra aðstoða.

Jakob Wayne Víkingur Róbertsson, leikmaður landsliðsins og Jón Gunnar Þórðarson.

„Þetta er ekki bara hefðbundið samstarf. Allt liðið lærir íslensku saman með Bara tala og notar íslenskuna á æfingum og í leik,“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala.

„Ég fyllist stolti þegar ég sé liðið í landsliðstreyjum með merkið okkar framan á sér. Þetta er raunveruleg tenging milli tungumáls, samfélags og íþrótta.“

Samhliða samstarfinu mun Bara tala þróa sérstök stafræn námskeið með íslenskum orðaforða fyrir krikket.

„Hingað til hefur mest verið notast við ensku hugtökin, en nú tökum við fyrsta skrefið í að þróa íslenskan orðaforða fyrir þessa alþjóðlegu íþrótt,“ segir Jón Gunnar.

Hér að neðan má sjá myndband af æfingu landsliðsins.  

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×