Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að þau mál sem lögregla hafi helst fengið tilkynningar og kærur um síðastliðnar vikur séu SMS-skilaboð sem reynast svik, gjafaleikir á Facebook, símtöl þar sem hringjandi segir bilun í tölvu viðtakanda og síðan tölvupóstar sem svipi til svokallaðra Nígeríubréfa, eins og lögregla kemst að orði.
Lögregla varar einnig við fjárfestingasvikum þar sem enn beri á tilkynntum málum þar sem fólk ætli að fjárfesta í rafmyntum og brotamennirnir bjóðist til að aðstoða og óska eftir að fólk hlaði forriti inn í símann sinn eða inn í tölvuna sína.
Þá sé lögregla sömuleiðis að fá tilkynningar um að fólk sé beðið um að samþykkja rafræn skilríki án þess að vera sjálft að reyna að skrá sig inn og þess vegna áréttir lögregla að fólk skrái aldrei inn rafrænu skilríki sín nema það sé alveg viss um upprunann.
Sjá einnig: Tíu milljónum fátækari eftir augnablik af einbeitingarleysi
Þess beri einnig að geta að til að taka á móti greiðslum sé engin þörf á að samþykkja rafræn skilríki.
Lögregla hefur einnig fengið tilkynningar og kærur frá fyrirtækjum sem eru að fá tölvupósta, meðal annars þar sem brotamenn komast inn í tölvupóstsamskipti milli söluaðila og kaupanda og senda falsaða reikninga eða breyta bankaupplýsingum vegna reikninga.
„Að lokum ber að vara við hvers kyns netglæpum, en reynslan hefur sýnt að þeir færast í vöxt yfir sumarmánuðina,“ segir í tilkynningunni, en lögregla bendir þeim sem hafa orðið fyrir netglæp að senda tölvupóst á cybercrime@lrh.is.