Íranskir miðlar segja að þar hafi verið á ferðinni síðasta árásin áður en vopnahlé tæki gildi og þá hafa fregnir borist af því að Ísraelar hafi einnig nýtt sér nóttina til að gera enn frekari árásir á Teheran höfuðborg Írans. Íranir hafa sagst ætla að virða vopnahléið, ef Ísraelar gera slíkt hið sama.
Nú í morgun tilkynntu Ísraelar að þeir hafi samþykkt tillögu Donalds Trump Bandaríkjaforseta um vopnahlé. Í yfirlýsingu segjast Ísraelar hafa náð markmiði sínu og eyðilagt möguleika Írana á að framleiða kjarnorkuvopn. Þeir þakka sérstaklega Bandaríkjamönnum fyrir stuðninginn.
„Ísrael mun bregðast við af hörku við öllum brotum á vopnahléinu,“ segir í yfirlýsingu Ísraela.
Trump tilkynnti um vopnahléið óvænt í gærkvöldi á samfélagsmiðli sínum þar sem hann sagði að tólf daga stríðinu eins og hann kallaði átök síðustu daga væri nú lokið. Fregnir hafa einnig borist af því að ráðamenn í Qatar hafi komið að samkomulaginu með einhverjum hætti.
Trump fullyrti að báðir aðilar hafi samþykkt að hætta átökunum.
Fréttin hefur verið uppfærð.