„TIL HAMINGJU HEIMUR, TÍMI ER KOMINN Á FRIÐ,“ fagnar Donald Trump á samfélagsmiðli sínum Truth Social í framhaldi af eldflaugaárás Írana á bandarísku herstöðina í al-Udeid sunnan Dóha, höfuðborgar Katar.
Í annarri færslu hæðist Trump að árásum Írana, kallar þær „veikar“ og þakkar jafnfram Írönum fyrir að láta sig vita af árásunum fyrir fram. Embættismenn í Katar og Bandaríkjunum hafa sagt Írani hafa varað sig við árásunum.
Árásin virðist því að nokkru leyti hafa verið táknræn, mögulega til þess fallin að sýna sig heima fyrir, en íranski byltingarvörðurinn segist hafa notað sama fjölda eldflauga í árásinn og Bandaríkjamenn notuðu í sinni, fjórtán. Stöðin í al-Udeid er auk þess ein víggirtasta herstöð Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum.
Að sögn forsetans sakaði engan Katara né Bandaríkjamann í árás Írana. Katarar lokuðu lofthelgi sinni í aðdraganda árásarinnar en hafa nú opnað hana á ný. Katarar sögðust áskilja sér rétt til að svara árásunum.
„Mögulega getur Íran núna haldið áfram í átt að frið og stillingu á svæðinu og ég hvet Ísrael til að gera slíkt hið sama,“ skrifar Trump.
Aftur á móti hafa Ísraelsmenn gefið út rýmingarskipun í Teheran, höfuðborg Íran.