Rúnar tók við þjálfun Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni árið 2022 og eftir gott gengi var í fyrra ákveðið að framlengja samning hans. Leipzig endaði í 13.sæti á nýafstöðnu tímabili, sem er lakari árangur en tímabilið þar á undan og ákváðu forráðamenn félagsins að leysa Rúnar frá störfum. Rúnar hefur þurft að starfa við krefjandi aðstæður þar sem að slæm fjárhagsstaða Leipzig hefur haft sitt að segja.
„Þetta er búið að vera lærdómsríkt en síðan að ég kom hingað hafa verið sparnaðaraðgerðir í gangi. Alltaf verið að minnka í leikmannahópnum og í ár var ástandið sérstaklega slæmt. Meðal annars þurfti að selja Viggó, eða þurfti þess ég veit það ekki. Hann var allavegana seldur. Markmiðið var bara að lenda ekki í fallbaráttu, sem við og sluppum við en við vorum neðarlega í töflunni og menn sættu sig ekki við það. Þá var bara ákveðið að láta þetta gott heita.“
Staðan var bara erfið
Kom það þér á óvart að forráðamenn félagsins skyldu nú ákveða að leita annað?
„Þetta er alltaf bara spurning um það hvernig menn horfa á þetta. Menn hér eru að stefna á Evrópukeppni en það er voða erfitt að þróa eitthvað ef það er alltaf verið að losa fleiri leikmenn heldur en koma til félagsins á móti. Staðan var bara erfið, ef til vill hefði geta verið hægt að spila betur úr þessu en úr því sem komið var er þetta bara ákvörðun sem var tekin og maður verður bara að sætta sig við það.“
Hafðirðu hug á því að halda áfram eftir nýafstaðið tímabil?
„Já ég átti eitt ár eftir og í fyrsta sinn núna átti að vera einhver möguleiki á því að fá leikmenn í sumar. Losa einhverjar stöður en þegar að ég kom hingað fyrir tveimur og hálfu ári síðan voru allir leikmenn með frekar langa samninga og lítið hægt að hreyfa við liðinu. Það hefur ýmislegt spilað inn í. Fjárhagsvandræði til að mynda og þá er þetta niðurstaðan.“
Barðist fyrir því að halda Viggó
Rúnar nefndi áður söluna á íslenska landsliðsmanninum Viggó Kristjánssyni frá Leipzig til Erlangen. Viggó hafði verið lykilmaður í liði Leipzig og reyndist svo bjargvættur Erlangen á nýafstöðnu tímabili. Tilboð Erlangen í hann var of gott fyrir Leipzig til að hafna, Rúnar vildi hins vegar ekki missa hann.

„Ég vildi þetta ekki en þetta voru bara þannig peningar í spilunum að félagið gat ekki sagt nei. Við fórum inn í tímabilið með fimm leikmenn í útilínunni, sem er mjög lítið. Í október sleit rétthenta skyttan okkar krossband og leikmaðurinn sem við fengum í staðinn fyrir hann var ekki að fylla það skarð nægilega vel. Svo eftir að Viggó fór meiðist hinn örvhenti leikmaðurinn og hann er frá alveg þangað til í apríl. Við vorum því í raun að spila þetta á þriðja örvhenta leikmanninum frá Erlangen sem kom í skiptum fyrir Viggó, sem og tveimur miðjumönnum lungað af tímabilinu. Menn gerðu það bara fínt en það hefði þurft oft eitt til tvö mörk í viðbót til þess að þetta hefði verið betra.“
Reyndirðu að berjast fyrir því að halda Viggó?
„Já. Þetta tók nokkrar vikur en eftir að upphæðin frá Erlangen passaði fyrir Leipzig þá hefurðu ekkert um þetta að segja í rauninni í svona málum. Það vakir náttúrulega fyrir öllum að félagið lifi svona af. Það lifir ekki af í endalausum mínus.“
„Gæfan ekki með okkur í liði“
Hvernig var að vinna í þessu umhverfi?
„Það er allt í lagi. Þegar að þú kemur úr handboltanum á Íslandi þá er það nú meira hark heldur en hitt. Það er alveg hægt að takast á við þetta en auðvitað eru erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka en eftir á hyggja þá reyndum við að gera okkar besta. Ég held að við höfum tapað sjö eða átta leikjum með einu marki frá því í desember og það segir okkur kannski líka það að gæfan var ekki með okkur í liði. Niðurstaða tímabilsins er því þrettánda sæti eftir að hafa endað í því áttunda árið áður. Þrátt fyrir að við hefðum minnkað hópinn þá var markmiðið enn að ná þessu áttunda sæti en við vorum langt frá því í ár.“

Forráðamenn Leipzig stefna á að vera á meðal topp sex liða þýsku deildarinnar og fara í Evrópukeppni þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Rúnar gengur sáttur frá borði.
„Mér fannst þetta fínn tími. Auðvitað er alltaf leiðinlegt þegar að þetta tekur enda en í þjálfarabransanum endar þetta nú yfirleitt svona. Ég get alveg gengið frá borði uppréttur og veit alveg hvað við gerðum. Ég skil líka að menn vilji, því það er alltaf verið að stefna á eitthvað Evrópusæti sem er þá topp sex sæti í þýsku úrvalsdeildinni, gera það með nýjum manni í brúnni. Það verður þá bara að koma í ljós hvernig það gengur.“
Hvað svo?
Hvað framhaldið varðar er Rúnar með ákveðna sýn.
„Ég ætla nú að byrja á að njóta sumarsins. Ég á enn eitt ár eftir af þessum samningi sem þarf að ganga frá. Ég ætla nýta þann tíma. Maður fer því að kíkja á það í haust hvað gæti verið í boði frá og með sumrinu 2026. Þá kemur það í ljós hvort það verði eitthvað eða hvort maður snýr sér að einhverju allt öðru.“

Þannig að þú hugsar þetta þannig að nú gæti tekið við ár þar sem að þú hleður batteríin og skerpt sýnina á framhaldinu?
„Já. Þetta er mjög skemmtilegt. Það er mjög gaman að vinna í þessu og ég hefði alveg hug á því að gera það áfram ef eitthvað gott býðst. Maður vill fyrst skoða þann möguleika áður en að maður fer að líta eitthvað annað í kringum sig.“
Hafandi verið í Þýskalandi undanfarin ár myndi hugurinn leita fyrst þangað alltaf upp á næsta kafla að gera?
„Já og ég myndi búast við því að það kæmi þá alltaf eitthvað héðan því maður er kominn með eitthvað nafn hérna en ég hefði ekkert á móti því að það kæmi eitthvað frá hlýrri löndum. En það er fínt hérna, umhverfið hér er mjög gott, deildin alltaf að vaxa og mér það bendir allt til þess að sportið sé að vera stærra og betra hér. Bæði liðin sem léku til úrslita í Meistaradeildinni sem og Evrópudeildinni komu frá Þýskalandi til að mynda.“