Leigusamningi Samhjálpar vegna húsnæðis Kaffistofunnar hefur verið sagt upp og rýma þarf húsnæðið fyrir mánaðamótin september-október. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Samhjálpar, sagðist í maí hafa áhyggjur af því að nýtt húsnæði finndist ekki í tæka tíð.
Samtökin hafa verið í virkri leit að húsnæði í rúmt ár og vilja helst fá nýtt húsnæði miðsvæðis upp á nálægð við gistiskýli á Granda og Lindargötu og neyslurýmið Ylju.
Fréttastofa spurði Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, á ríkisstjórnarfundi út í lokun Kaffistofunnar og hvort hún hefði áhyggjur af stöðu mála.
„Ég hef miklar áhyggjur af því vegna þess að þetta er ómetanlegt starf sem Samhjálp er að vinna fyrir okkar minnstu bræður og systur sem búa við erfiðustu aðstæðurnar í samfélaginu í dag,“ sagði Inga Sæland.
Málið væri til meðferðar í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu.
„Við munum aldrei láta það gerast í rauninni að þau fái ekki þær úrbætur sem þau þurfa til þess að geta haldið áfram sínu góða starfi,“ sagði hún.
Þið munuð tryggja það að reksturinn haldist áfram þarna?
„Við erum að minnsta kosti að vinna í því að gera allt sem í okkar valdi stendur. Þannig mínar vonir standa til þess,“ sagði Inga.
Kaffistofan hefur verið rekin í Borgartúni frá árinu 2007 en opnaði upprunalega árið 1981 á Hverfisgötu og hefur Kaffistofan því verið starfrækt í meira en 40 ár. Á Kaffistofu Samhjálpar er boðið upp á heitan mat alla daga, allan ársins hring.