Framkvæmdastjórinn Sævar Pétursson staðfesti tíðindin í viðtali við Fótbolta.net. KA tryggði sér þátttökurétt í undankeppni Sambandsdeildarinnar með því að vinna Mjólkurbikarinn í fyrra og fær að sleppa fyrstu umferð þökk sé góðum árangri íslenskra liða undanfarin ár. Ísland hefur hækkað á UEFA styrkleikalistanum.
„Það er náttúrulega stórt fyrir okkur, félögin fá ákveðna upphæð eftir því hvenær þau detta út úr keppninni. Upphæðin er 150 þúsund evrur fyrir umferð eitt og 350 þúsund evrur fyrir umferð tvö. Við erum komnir í gegnum fyrstu umferðina og spörum okkur tvo leiki. Það eru góðar fréttir fyrir okkur” sagði Sævar og staðfesti einnig að KA stefndi á að spila á sínum heimavelli á Akureyri.
Evrópusætið sem fæst fyrir að vinna bikarinn er verðmætara en sætin sem fást fyrir að enda í öðru og þriðja sæti Bestu deildarinnar. Víkingur og Valur þurfa því að komast í gegnum fyrstu umferðina sem KA sleppir.

Víkingar verða hins vegar í efri styrkleikaflokki en Valur í neðri styrkleikaflokki, vegna þess að Víkingur endaði ofar í deildinni.
Komist Víkingur og Valur í gegnum fyrstu umferðina, sem fer fram 10. og 17. júlí, verða þrjú íslensk lið í annarri umferðinni, sem fer fram 24. og 31. júlí.
Dregið verður í fyrstu og aðra umferðina þann 17. og 18. júní og þá kemur í ljós hvaða liðum KA, Víkingur og Valur munu mæta á leiðinni.
Íslandsmeistarar Breiðabliks eru skráðir í undankeppni Meistaradeildarinnar en gætu dottið inn í undankeppni Sambandsdeildarinnar ef liðið kemst ekki áfram þar eða í undankeppni Evrópudeildarinnar.