Anna Árnadóttir, sem tengist nýja verslunarkjarnanum, tilkynnti nafnið en um fimm hundruð tillögur bárust. Vegleg verðlaun voru fyrir besta nafnið en sjö einstaklingar stungu upp á nafninu sem var valið, Austurgarður.
Í Austurgarði eru fjórar verslanir. Gina Tricot, Emil & Lína, Penninn Eymundsson og H-verslun. Albert Þór Magnússon, kaupmaður og Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans Eymundsson eru ánægðir með nýja verslunarkjarnann.
Albert, nýja Ölfusárbrúin, spilar hún eitthvað inn í þetta?
„Auðvitað er þessi verslunarkjarni ótrúlega vel staðsettur gagnvart þessari merkilegu brú, sem hefur verið svo lengi í bígerð. Við erum auðvitað að horfa til þess að við erum með verslun hérna fyrir, sem heitir Lindex og er við hliðina á Bónus. Hérna er svo ÁTVR og líka Almar bakari,” segir Albert.
Á svæðinu má einnig finna Byko, Húsasmiðjuna og Íslandspóst svo eitthvað sé nefnt.

Ingimar, er þetta ekki bara allt meiriháttar?
„Jú, jú, okkur líst bara mjög vel á þetta. Það er bara heiður fyrir okkur að vera á þessum stað,“ segir Ingimar.
Penninn Eymundsson var í nýja miðbænum á Selfossi en vildi flytja sig í nýtt og stærra húsnæði.
„Við vorum alltaf að leita að svona húsnæði og það er alveg ótrúlega vel byggt þetta hús, beinar línur eins og þeir segja smiðirnir og Hannes Þór Ottesen, sem byggði þetta hefur staðið sig alveg frábærlega í þessari framkvæmd með okkur,“ bætir Ingimar við.

