Það sem hefði átt að vera gleði og ánægja á götum Parísar eftir ótrúlegan 5-0 sigur PSG á Allianz-vellinum í Þýskalandi leystist fljótt upp í óeirðir og almenna skelfingu.
Aldrei í sögunni hefur lið unnið úrslitaleikinn með slíkum yfirburðum. Leikurinn fór fram á Allianz-vellinum í Þýskalandi en um 50 þúsund manns komu saman á heimavelli PSG, Parc des Princes, til að horfa á leikinn.
Eftir að PSG hafði verið krýnt besta lið Evrópu fór safnaðist fjöldi fólks saman á götum Parísar til að fagna. Þau fagnaðarlæti fóru fljótt úr böndunum. Sky fréttastofan greinir frá því að tveir einstaklingar séu látnir.
Annar, 17 ára gamall piltur, var stunginn til bana og 23 ára gamall maður sem var keyrandi um á vespu. Ekki kemur fram hvað gerðist í síðara tilvikinu.
Jafnframt greinir Sky frá því að 560 manns hafi verið handtekin, að lögreglumaður sé í dái, að 192 hafi slasast í óeirðunum og 692 íkveikjur hafi átt sér stað. Þar af 264 sem innihéldu íkveikju í ökutæki.

Alls voru 5400 lögreglumenn á vakt í borginni þegar fagnaðarlætin, og óeirðirnar í kjölfarið, brutust út. Lenti þeim saman við óeirðarseggina víðsvegar um borgina. Óeirðarlögregla borgarinnar þurfti til að mynda að nota vatnsbyssu til að koma í veg fyrir að hópur fólks kæmist að Sigurboganum. Þá var táragasi beitt.
„Sannir stuðningsmenn PSG eru að njóta þessa ótrúlega leiks. Á sama tíma hafa villimenn nýtt tækifærið til að fremja glæpi og ögra lögreglunni,“ sagði Bruno Retailleau, innanríkisráðherra Frakklands, um atvik næturinnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.