Viktor Gísli, sem er á leið til Barcelona eftir tímabilið, hóf leikinn í marki Wisla Plock en varði aðeins tvö skot þann tíma sem hann var inni á vellinum í fyrri hálfleik.
Þar voru það gestirnir úr Kielce sem voru með yfirhöndina. Í stöðunni 5-4 fyrir Wisla Plock skoraði lið Kielce fjögur mörk í röð og komst í 8-5. Munurinn í hálfleik var fjögur mörk, staðan þá 15-11 fyrir Kielce.
Viktor Gísli hóf síðari hálfleikinn á bekknum en kom aftur inná þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður. Leikurinn var í járnum, gestirnir skrefinu á undan en heimamenn náðu í nokkur skipti að minnka muninn í eitt mark.
Spennuþrungnar lokamínútur
Heimaliði Wisla Plock tókst síðan loks að jafna metin og komast yfir í stöðunni 26-25 en liðið var þá á 8-3 áhlaupi. Eftir það var jafnt á nánast öllum tölum og í stöðunni 29-29 tóku heimamenn leikhlé með fimmtán sekúndur á klukkunni.
Þann tíma nýttu þeir vel. Michał Daszek tókst á einhvern ótrúelegan hátt að skora úr afar þröngu færi í horninu þegar tvær sekúndur voru eftir. Dómararnir skoðuðu markið í skjánum þar sem leikmaður Wisla Plock lá í teignum eftir misheppnaða sirkustrilraun en markið stóð.
Kielce náði ekki skoti á markið á þeim tveimur sekúndum sem voru eftir og stuðningsmenn heimamanna ærðust af fögnuði í höllinni. Lokatölur 30-29 og Wisla Plock því komið í 1-0 forystu í einvígi liðanna en tvo sigra þarf til að tryggja sér pólska meistaratitilinn.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 6 skot í leiknum eða 27% þeirra skota sem hann fékk á sig.