Fótbolti

Þriggja leikja banns Stefáns gagnrýnt: „Aldrei reynt að meiða neinn“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stefán Ingi Sigurðarson lék með Blikum hér heima áður en hann hélt utan.
Stefán Ingi Sigurðarson lék með Blikum hér heima áður en hann hélt utan. Vísir/Hulda Margrét

Stefán Ingi Sigurðarson, leikmaður Sandefjord í Noregi, hefur verið dæmdur í þriggja leikja bann fyrir brot sem átti sér stað í leik fyrir skemmstu. Forráðamenn félags hans skilja hvorki upp né niður í banninu.

Stefán fékk að líta rautt spjald fyrir að brjóta á leikmanni Vikings frá Stafangri á dögunum og fékk að launum rautt spjald. Í skýrslu dómara leiksins um atvikið er Stefán sakaður um að hafa reynt að sparka til mótherjans og að hafa slegið hann í höfuðið.

Atvikið má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Aganefnd í Noregi gaf honum tveggja leikja bann fyrir brotið en Sandefjord áfrýjaði þeirri niðurstöðu.

Sú áfrýjun bar ekki árangur og hafði í raun öfug áhrif þar sem bann Stefáns var lengt í þrjá leiki. Stefán Ingi hæfði höfuð andstæðings síns, en segist sjálfur einfaldlega hafa reynt að styðja sig við andstæðinginn er hann stóð upp.

„Ég hef aldrei á mínum ferli, eða í lífi mínu, slegið neinn eða reynt að meiða hann. Hvorki innan né utan fótboltavallarins,“ er haft eftir Stefáni í yfirlýsingu Sandefjord.

Í þeirri yfirlýsingu furða forráðamenn Sandefjord sig á niðurstöðu aganefndar norska sambandsins, Stefán eigi bannið ekki skilið og framkoma bæði norska knattspyrnusambandsins, sem og dómara leiksins, sé ávítaverð.

Stefán mun hins vegar missa af næstu þremur leikjum Sandefjord en hann hefur skorað fimm mörk í fyrstu sjö umferðum deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×