Hlynur var í fanginu á Júlíusi Orra Ágústssyni þegar Ægir Þór Steinarsson vildi komast að. Þegar Hlynur áttaði sig á hver þetta var sem vitjaði hans brosti hann og féll svo í faðm Ægis.
Faðmlagið var langt, innilegt og merkingarþrungið. Þetta var líkast því þegar Ólafur Stefánsson grét eins og ungabarn í bjarnarhrömmum Sigfúsar Sigurðssonar eftir sigur Íslands á Spáni í undanúrslitum Ólympíuleikanna 2008. Þetta eru ósviknu tilfinningarnar sem íþróttir geta kallað fram á sínum bestu stundum.
Eftir 28 ár í meistaraflokki var þessu lokið, og það á besta mögulega hátt. Hlynur Bæringsson ríður út í sólsetrið sem sigurvegari. Sama hvernig leikurinn í gær hefði farið hefði hann alltaf kvatt með höfuðið hátt. En þetta var fullkominn endir á einum lengsta og magnaðasta ferli íslensks íþróttamanns.
Síðan eru liðin mörg ár
Já, eins og er búið að klifa margmargmargoft á undanfarna daga er Hlynur 42 ára. En þetta er staðreynd sem er alltaf jafn klikkuð, hversu oft sem hún er nefnd. Hlynur er fæddur í júlí 1982, sama ár og Rokk í Reykjavík kom út. Átta ár liðu þar til þjálfari Stjörnunnar, Baldur Þór Ragnarsson, kom í heiminn. Þegar Hlynur fæddist gat fólk ekki horft á sjónvarp á fimmtudögum og Berlínarmúrinn stóð enn keikur.
Hlynur lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki á Hlíðarenda, 16. október 1997 þar sem Skallagrímur vann Val, 92-108. Hlynur, þá fimmtán ára, skoraði fjögur stig á þeim fjóru mínútum sem hann spilaði. Annar dómara leiksins var Sigmundur Már Herbertsson sem dæmdi einmitt oddaleikinn í gær. Sumt breytist bara ekki.

Árið 1997 var Spice Girls á hátindi ferilsins, Titanic var vinsælasta mynd ársins og Kio Briggs varð óvænt alþýðuhetja á Íslandi. Þetta er eitthvað sem samherjar Hlyns hafa bara lesið um í bókum. Aðeins tveir þeirra, Ægir og Shaquille Rombley, voru fæddir þegar Hlynur lék fyrsta leikinn í meistaraflokki. Baldur þjálfari var nýbyrjaður í sjö ára bekk.
Tókst í fjórðu tilraun
Ferilinn í meistaraflokki spannar því tæpa þrjá áratugi. Og á ýmsu hefur gengið. Hlynur lék með Skallagrími til 2002 en fór svo til Snæfells þar sem hann var leiðtogi liðs sem virtist aldrei ætla að komast yfir hjallann, að verða Íslandsmeistari. Hólmarar töpuðu þrisvar sinnum á fimm árum fyrir Keflvíkingum í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Þetta virtist bara ekki ætla að heppnast.

En 2010 var Keflavíkurbölvuninni loks aflétt, og það með stæl. Snæfell vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir yfirburðasigur á Keflavík í oddaleik suður með sjó. Þjálfari Snæfells, sem varð einnig bikarmeistari, var Ingi Þór Steinþórsson, núverandi aðstoðarþjálfari Stjörnunnar.
Hlynur varð aftur meistari eftir sigur í oddaleik árið eftir, með Sundsvall Dragons í Svíþjóð. Þar lék hann til 2016 er hann gekk í raðir Stjörnunnar, þá 34 ára. Fáa hefði grunað að hann ætti eftir að spila í níu tímabil í viðbót.

Hlynur varð tvisvar sinnum deildarmeistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með Stjörnunni en aldrei komst liðið í úrslit um stærsta titilinn. Og á síðasta tímabili komust Garðbæingar ekki einu sinni í úrslitakeppnina. Hlynur ákvað samt að taka eitt ár í viðbót. Það var ekki hægt að enda svona.
Hikst og lítið hlutverk
Stjarnan gaf í, Baldur kom í Garðabæinn eftir dvöl í Þýskalandi og með honum fylgdu þrír íslenskir landsliðsmenn; Hilmar Smári Henningsson, Orri Gunnarsson og Bjarni Guðmann Jónsson. Stjarnan fékk svo Jase Fabres og Rombley, tvo sterka liðsmenn.

Framan af tímabili gekk allt vel, góður taktur var í Stjörnuliðinu en það hikstaði síðan verulega eftir áramót. Tilraunin með Jaka Klobucar misheppnaðist, Stjarnan laut í lægra haldi fyrir nýliðum KR í undanúrslitum bikarkeppninnar og tapaði sex af síðustu ellefu leikjum sínum í deildarkeppninni.
Hlynur var í litlu hlutverki í deildinni, spilaði aðeins tæpar níu mínútur að meðaltali í leik og aðeins einu sinni meira en tuttugu mínútur. En það breyttist í úrslitakeppninni.
Veðjað á reynsluna
Hlynur missti af fyrstu tveimur leikjunum gegn ÍR en eftir það fór hlutverk hans stækkandi. Hann spilaði 21 mínútu í oddaleiknum gegn Grindavík þar sem hann reyndist ómetanlegur. Í leikjunum fimm gegn Tindastóli spilaði Hlynur svo aldrei minna en tæpar nítján mínútur í leik.
Hann jafnaði í 69-69 þegar hann setti niður þriggja stiga skot er sjö mínútur voru eftir í leiknum í gær. Það var ekki í eina skiptið í úrslitakeppninni þegar hann skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu.
Hlynur fór út af þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir en kom aftur inn á þegar Orri fékk sína fimmtu villu þegar 62 sekúndur voru eftir. Hann var því inni á vellinum þegar úrslitin réðust.
Dedrick Basile minnkaði muninn í 77-80 og Sadio Doucoure gat jafnað en þriggja stiga skot hans geigaði. Stjarnan tók leikhlé þegar sextán sekúndur voru eftir, Tindastóll braut ekki og Rombley jók muninn aftur í fimm stig með troðslu. Basile reyndi neyðarskot sem missti marks, Rombley tók frákastið og því var ljóst að titilinn færi í Garðabæinn í fyrsta sinn.

Flestir Stjörnumenn hoppuðu og skoppuðu um en Hlynur fól andlitið í treyjunni og hlammaði sér á gólfið. Eftir 28 ár af hörku, harðindum, sárindum og sigrum þurftu rúmlega fertugir fæturnir ekki að erfiða meira. Nú var tími til að hvílast, gleðjast; kominn í örugga höfn.
Almættið lofsamað
„Alsæla. Ég á hreinlega ekki orð,“ sagði Hlynur í viðtali við Andra Má Eggertsson eftir leikinn.
„Stórkostlegt og eitthvað sem ég get tekið með mér í ellina. Ég verð lengi mjög stoltur af þessu liði. Þetta er búið að vera upp og niður hjá Stjörnunni. Nokkur vonbrigði sem við höfum lent í, við áttum þetta skilið eftir öll þessi ár. Ég þakka Guði fyrir að leyfa mér að upplifa þetta. Ég er búinn að vera lengi í þessu og hann var góður við mig.“
Hlynur varð tvívegis Íslandsmeistari, einu sinni sænskur meistari, fimm sinnum bikarmeistari, þrisvar sinnum deildarmeistari, var tvisvar sinnum valinn besti leikmaður deildarinnar, einu sinni besti ungi leikmaðurinn, þrisvar sinnum varnarmaður ársins á Íslandi og tvisvar sinnum í Svíþjóð, leiddi sænsku deildina þrisvar sinnum í fráköstum og er frákastahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi. Hann spilaði líka 129 landsleiki og leiddi íslenska liðið á tvö Evrópumót. Þetta var bara skrambi gott.

Kampavínið hefur eflaust aldrei verið sætara á bragðið og í búningsklefanum á Króknum í gær og reykurinn sem steig upp þegar sigurvindilinn var tendraður jafn svalur. Eins og sá sem sat með Íslandsmeistarabikarinn, á hinni fullkomnu endastöð eftir einstakan feril.