Körfubolti

Tap í fyrsta leik Alba Berlin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Martin Hermannsson töpuðu í dag.
Martin Hermannsson töpuðu í dag. Vísir/Getty

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin töpuðu í dag fyrir liði Ulm í 8-liða úrslitum þýsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta.

Leikurinn í dag var fyrsti leikur liðanna í einvígi þeirra í 8-liða úrslitum en þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslit. Alba Berlin lenti í 7. sæti deildakeppninnar en Ulm í 2. sæti og því sigurstranglegra fyrir einvígið.

Gestirnir frá Berlín byrjuðu leikinn betur. Þeir leiddu 27-20 eftir fyrsta leikhlutann og komust mest níu stigum yfir í upphafi þess annars. Þá náðu heimamenn 13-0 áhlaupi og breyttu stöðunni úr 34-25 í 38-34 sér í vil.

Staðan í hálfleik var 45-40 og leikurinn í járnum. Um miðjan þriðja leikhluta náðu heimamenn öðru áhlaupi og komust þrettán stigum yfir fyrir fjórða leikhlutann. Þar náði lið Alba mest að minnka muninn niður í sex stig en komust ekki nær en það. Lokatölur 94-83 og Ulm því komið með forystu í einvíginu.

Martin Hermannsson lék í tæpar tuttugu mínútur í leiknum í dag. Hann skoraði fjögur stig, gaf fjórar stoðsendingar og tók tvö fráköst. Liðin mætast í leik tvö á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×