„Ég bý yfir þeim lúxus að geta horft á leikina ansi oft og þegar maður lítur á hans frammistöðu heilsteypt var hann flottur fyrstu 60-70 mínúturnar í fyrri leiknum. Dró aðeins af honum þegar leið á, af því hann er ekki í leikformi“ sagði Arnar um frammistöðu Arons í fyrri leiknum. Aron fékk síðan rautt spjald þegar hann kom inn af varamannabekknum í seinni leiknum.
Arnar sagði ljóst að leikformið myndi lagast og Aron væri leikmaður sem hann vildi hafa innan hópsins þegar alvaran hefst í haust, í undankeppni HM.
„Ekki bara vegna hans hæfileika á vellinum heldur líka utan vallar. Þetta er tricky gluggi líka [vináttulandsleikirnir sem eru framundan gegn Skotlandi og N-Írlandi], þetta er sumargluggi.
Þá mæta menn auðvitað fyrir hönd Íslands og vilja gera sitt besta, en margir eru búnir að eiga langt og strangt tímabil, og kannski aðeins farnir að sjá fyrir sér strandarlífið og þess háttar. Ég vænti mikils af Aroni að sýna gott fordæmi og vera sá leiðtogi sem hann er í þessum glugga“ sagði Arnar einnig.
Í spilaranum efst í fréttinni má sjá þegar landsliðsþjálfarinn ræðir hlutverk Arons Einars en blaðamannafundinn í heild sinni má finna hér fyrir neðan.